fbpx
Home / Fréttir / Singapúrfundurinn: Upphaf á ferli en ekki skyndilausn

Singapúrfundurinn: Upphaf á ferli en ekki skyndilausn

Kim Jong-un og Donald Trump.
Kim Jong-un og Donald Trump.

Það reynir á innsæi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta þriðjudaginn 12. júní þegar hann hittir, fyrstur forseta Bandaríkjanna, leiðtoga einræðis- og harðstjórnarríkisins Norður-Kóreu, eins einangraðasta ríki heims. Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, sem komst til valda árið 2011 hefur aðeins farið út fyrir landamæri ríkis síns síðan í tengslum við þennan fund með Trump: fyrst tvisvar til Kína og nú til Singapúr til fundarins með Trump.

Áður en Trump hélt af stað til Singapúr af G7-fundinum í Kanada laugardaginn 9. júní sagði hann á blaðamannafundi að næmi sitt á annað fólk væri svo mikiða að hann þyrfti ekki nema 5 sekúndur til að átta sig á viðmælanda sínum og á innan við mínútu sæi hann hvort sér þætti ávinningur af að ræða við Kim.

Sendinefnd frá Suður-Kóreu hitti Donald Trump í Hvíta húsinu í Washington 8. mars 2018 og flutti honum boð frá Kim Jong-un um að hann vildi fund með Bandaríkjaforseta. Án þess að ráðfæra sig við nokkurn þáði Trump boðið og varð formaður sendinefndar S-Kóreu fyrstur til að skýra frá því opinberlega. Fundur Trumps og Kims verður í Singapúr þriðjudaginn 12. júní. Tvisvar sinnum undanfarin 25 ár hefur Bandaríkjastjórn árangurslaust reynt að knýja fram kjarnorkuafvopnum Norður-Kóreu. Nú ráða Norður-Kóreumenn yfir slíkum vopnum.

Til þessa hafa allir forsetar Bandaríkjanna talið tilgangslaust að efna til toppfundar með einræðisherra Norður-Kóreu. Trump telur sig hins vegar yfirburða-samningamann og að sér muni takast að hefja „ferli“ sem leiði til kjarnorkuafvopnunar sem sé „algjör, sannanleg og viðvarandi“.

Í kosningabaráttu sinni lagði Donald Trump enga áherslu á málefni Norður-Kóreu. Hann flutti þá eina ræðu um utanríkismál í apríl 2016 og nefndi landið þá stuttlega. Meginefni hennar var gagnrýni á Barack Obama, þáv. Bandaríkjaforseta.

Eftir að Trump varð forseti kom til harðra orðaskipta á milli hans og Kims á opinberum vettvangi. Trump gaf fyrirmæli um að herða refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu á árinu 2017 eftir að Kim hafði hreykt sér af því að eiga eldflaugar sem næðu til skotmarka hvarvetna í Bandaríkjunum. Á hinn bóginn var talið ólíklegt að þær gætu á þessu stigi flutt kjarnavopn.

Moon Jae-in var kjörinn forseti Suður-Kóreu í maí 2017 og hefur hann gegnt lykilhlutverki í að lægja öldur í samskiptum Trumps og Kims, einkum eftir að Trump hótaði „eldi og brennisteini“ í ágúst 2017. Vetrarólympíuleikarnir í Suður-Kóreu snemma árs 2018 urðu til þess að brjóta ísinn í samskiptum stjórnvalda Suður- og Norður-Kóreu. Síðan hafa Moon og Kim hist á tveimur sögulegum fundum við landamæri ríkjanna.

Stjórnmálaskýrendur segja að á lokastigum málsins eftir að Trump hafði hótað að hætta við fundinn vegna ögrana Kims hafi Mike Pompeo, fráfarandi yfirmaður CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, og núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, náð þráðunum saman að nýju. Hann hefur tvisvar farið til fundar við Kim á undanförnum vikum, fyrst sem CIA-forstjóri og síðar sem utanríkisráðherra. Sumir ganga svo langt að kalla fundinn í Singapúr Pompeo show – sýningu Pompeos.

Mike Pompeo sagði á blaðamannafundi í Singapúr mánudaginn 11. júní að undirbúningsviðræður fyrir toppfundinn gengju „hratt“ fyrir sig. Hann sagði fundinn veita „einstakt tækifæri til að breyta framvindunni í samskiptunum [milli ríkjanna] og stuðla að friði og farsæld“ fyrir Norður-Kóreu.

Hann lagði jafnframt áherslu á að refsiaðgerðum yrði ekki aflétt og þær kynnu að þyngjast „miðaði ekki í rétta átt í pólitísku samskiptunum“.

Hann sagði lykilatriði að Bandaríkjastjórn væri fús til að bjóða „einstaka“ ábyrgð á öryggi Norður-Kóreu en aðeins í skiptum fyrir „sannanlega og viðvarandi“  heitstrenginu um kjarnorkuafvopnun.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, fagnaði mánudaginn 11. júní toppfundinum í Singapúr sem „sögulegum áfanga“ á leið til minnkandi spennu á Kóreuskaga. Hann áréttaði að stjórnvöld S-Kóreu yrðu að eiga aðild að öllum frekari viðræðum við fulltrúa N-Kóreu sem hann taldi að kynnu að standa árum saman.

Moon sagði að ekki væri unnt að uppræta djúpstæða óvild Norður-Kóreumanna eða kjarnorkuvopn þeirra á einum topp-fundi. Hann spáði því að nú hæfist langt ferli, það gæti tekið eitt ár, tvö ár eða jafnvel lengri tíma leysa úr ágreiningi við stjórn Kims.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …