fbpx
Home / Fréttir / Siðlausar rannsóknir við Kaupmannarhafnarháskóla fyrir Kínastjórn

Siðlausar rannsóknir við Kaupmannarhafnarháskóla fyrir Kínastjórn

 

Mótmælandi úr hópi Uighura.
Mótmælandi úr hópi Uighura.

Í danska blaðinu Jyllands-Posten birtist sunnudaginn 5. júlí leiðari undir fyrirsögn þar sem segir að viðvörunarbjöllur hefðu átt að hringja í Kaupmannahafnarháskóla en þar hefði hið gagnstæða gerst. Er þar vísað til samstarfs danskra vísindamanna við „kúgunarvél“ Kínastjórnar.

Í stuttu máli er sagan þess: Rannsakendur við Kaupmannahafnarháskóla hafa rannsakað lífssýni (dna) úr Uighurum og Kasakherum í Xinjiang-héraði. Uighurar eru minnihlutahópur múslima sem valdhafar kommúnista kúga með öllum ráðum. Alþjóðlegir athugendur telja að um ein og hálf milljón Uighura hafi verið neyddir til að fara í svonefndar endurhæfingarbúðir, það er ríkisrekin heilaþvottahús. Í fyrstu sögðu kínversk yfirvöld að engar slíkar búðir væru starfræktar en lýstu þeim síðar sem einskonar endurmenntunarstöðvum. Amnesty International birtir upplýsingar um Uighura sem kínversk stjórnvöld láta elta í útlöndum; sumum þeirra eru sendar morðhótanir aðrir eru sendir til Kína til dæmis af Egyptum en þeir búa sjálfir við einræðisstjórn sem vill greinilega vinna sig í álit hjá fjársterkum stjórnvöldum í Peking.

Blaðið segir að Niels Morling prófessor fari fyrir rannsóknarhópnum í Kaupmannahöfn. Í æviágripi hans segi að frá 2012 hafi hann verið ráðgjafi erfðavísastofnunar á vegum kínverska öryggismálaráðuneytisins. Morling segi allt í himnalagi. Uighurarnir hafi samþykkt að taka þátt í rannsókninni. Það hafi meira að segja námsmaður í uighuriskum málefnum tekið sýnin og flutt þau til Danmerkur.

Jyllands-Posten segir:

„Maður fær áhyggjur af að sjálfur hafi prófessorinn dvalist í einhverjum af endurhæfingarbúðunum til að geta boðað þessi sannindi. Þau virka að minnsta kosti ekki sannfærandi. Námsmaðurinn tengist ekki aðeins Kaupmannahafnarháskóla heldur einnig lögregluskólanum í Xinjiang.

Varla er gengið of nærri nokkrum með því að segja að tæplega megi líkja menntasetrinu í Xinjiang við lögregluskólana í Frederciu eða Brøndby. Rune Steenberg, danskur sérfræðingur í málefnum Uighura, lýsir skólanum sem „hluta af mjög öflugu kúgunarkerfi í Xinjiang“. Belgískur sérfræðingur, Yves Moreau, prófessor við háskólann í Leuven, segir verkefnið „algjörlega siðlaust“ og hvetur Kaupmannahafnarháskóla til að láta sig málið varða.

Ekki er annað unnt en styðja það. Alþjóðasamstarf er jákvætt og fyrir því er einnig löng hefð í háskólasamfélaginu. Einmitt þess vegna getur maður skoðað hug sinn og notað þá gagnrýnu hugsun sem á vera að baki hverri rannsókn. Viðvörunarbjöllur eiga að hringja þegar átt er í samskiptum við öryggismálaráðuneyti eða lögregluskóla í einræðisríki. Og standi manni til boða sýni frá ofsóttum minnihlutahópi ber tafarlaust að hemla.

Því miður gerðist hið gagnstæða í Kaupmannahafnarháskóla. Því miður er einnig hefð fyrir slíku. Danskar menntastofnanir hafa verið alltof opnar gagnvart Konfúsíusarstofnuninni, formlegri menningarlegri ásýnd Kína gagnvart útlöndum sem lýtur stjórn ríkisstjórnarinnar og þolir ekki gagnrýni. Einkarekin fyrirtæki hafa ekki heldur alltaf verið góðar fyrirmyndir. Danska fyrirtækið Storno, sem nú er úr sögunni, lét til dæmis á níunda áratugnum rúmensku lögreglunni undir stjórn ómennisins Nicolaes Ceausescus í té farsímakerfi. Morling prófessor bendir á að vísindasiðanefndir á höfuðborgarsvæðinu hafi samþykkt verkefni sitt. Það bætir ekki úr skák. Mogens Holst Nissen, deildarforseti við Kaupmannahafnarháskóla, bíður eftir greinargerð en minnir á gildi gagnrýnnar afstöðu og siðferðilegrarar ábyrgðar. Undir það má taka, upplýsa verður allt í þessu máli.“

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …