fbpx
Home / Fréttir / Rússneskur sendiherra segir að ekki verði gripið til gagnráðstafana vegna BALTOPS-æfingarinnar

Rússneskur sendiherra segir að ekki verði gripið til gagnráðstafana vegna BALTOPS-æfingarinnar

 

Mikhail Vanin sendiherra
Mikhail Vanin sendiherra

Flotaæfingar undir forystu Bandaríkjamanna, BALTOPS, hefjast á Eystrasalti mánudaginn 6. júní Mikhail Vanin, sendiherra Rússa í Kaupmannahöfn, segir að æfingarnar séu and-rússneskar en Rússar muni ekki bregðast við þeim með sérstökum gagnaðgerðum.

Þetta segir á vefsíðu Berlingske Tidende laugardaginn 4. júní. Þar er vitnað til þess að Michael Hesselholt Clemmesen, fyrrverandi herforingi og sagnfræðingur, hafi nýlega varað við því í grein í blaðinu að Rússar mundu grípa til harkalegra gagnaðgerða vegna æfinganna. Rússneski sendiherrann segir hins vegar að Clemmesen fari villur vega. Rússar muni ekki grípa til neinna aðgerða. Þeir muni ekki „dramatísera“ æfinguna en fylgjast með henni. „Okkur finnst hins vegar ekki skynsamlegt að efna til hennar. Hún er ögrun og Danir ættu ekki að taka þátt í svona and-rússneskri sýningu,“ segir sendiherrann.

Æfingin stendur í tvær vikur – hún nefnist BALTOPS 2016. Þátttakendur eru frá 15 löndum auk tveggja samstarfslanda. Um 6.000 menn úr flota, landher og flugher koma við sögu. Danir senda aðstoðarskipið Absalon með 113 manna áhöfn. Þá senda Danir einnig sprengjuleitarflokk og siglingarfræðinga.

Allt að 35 skip og 70 flugvélar taka þátt í flotaæfingunum en pólititískt markmið þeirra er að staðfesta vilja þátttökuríkjanna til að verja Eystrasaltsríkin gegn rússneskum þrýstingi.

Vegna ummæla Clemmesens, fyrrverandi hershöfðingja, sagði Mikhail Vanin sendiherra að hershöfðingjar lifðu enn í kalda stríðinu og hjarta þeirra slægi hraðar hugsuðu þeir um stríð. Þeir minntu á Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana. Hann virtist jafnan gleðjast þegar hann talaði um yfirgang Rússa. „Hann verður ungur, kraftmikill og kemst í essið sitt þegar talið beinist að kalda stríðinu,“ segir sendiherrann.

Hann segir að Rússar vilji frið og velferð, lifa í friði með öllum Evrópumönnum. „Komi til styrjaldar verða það engin smáátök. Það verður barist þar til yfir lýkur. Það verða endalokin. Við erum ekki Sovétmenn, við erum ekki bolsjevikkar, við viljum ekki útrýma neinum. Við höfum hins vegar hagsmuna að gæta og viljum að þeir séu virtir,“ segir sendiherrann.

Í Berlingske Tidende víkur rússneski sendiherrann einnig að því að Anders Fogh Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra Dana og framkvæmdastjóri NATO, sé orðinn ráðgjafi Petros Porosjenkos Úkraínuforseta, það muni ekki bæta ástandið milli Rússa og Úkraínumanna.

„Eigi hann [Fogh Rasmussen] að veita ráð um rússnesk-úkraínsk mál teljum við að það auðveldi ekki til þess að skapa eðlilegt ástand í suðaustur Úkraínu – ef marka má óvild hans í garð Rússa fram til þessa,“ segir Mikhail Vanin sendiherra.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …