fbpx
Home / Fréttir / Rússneskur sendiherra gagnrýnir Dani vegna flotaæfingar

Rússneskur sendiherra gagnrýnir Dani vegna flotaæfingar

Vladimir V. Barbin, sendiherra Rússa í Danmörku.
Vladimir V. Barbin, sendiherra Rússa í Danmörku.

Vladimir V. Barbin, sendiherra Rússa í Danmörku, áður norðurslóða-sendiherra Rússa, segir að Danir hafi ekki aðeins ögrað Rússum með því að senda hervél til þátttöku í fjögurra landa æfingu NATO-ríkja í Barentshafi fyrir 12 dögum. Danir hafi auk þess tekið þátt í æfingunni á fölskum forsendum.

„Æfingar af þessu tagi svona nálægt rússnesku landamærunum vekja efasemdir um hve mikil alvara felst, þegar á reynir, í þeim orðum nágranna okkar í norðri að þeir vilji að þarna sé lágspennusvæði,“ segir Barbin í skriflegri yfirlýsingu til Ritzau-fréttastofunnar.

Danska hervélin, óvopnuð eftirlitsvél af Challenger-gerð tók þátt í flotaæfingu Bandaríkjamanna, Breta og Norðmanna sem sendu herskip sín inn í efnahagslögsögu Rússa.

Skip og flugvélar frá NATO-ríkjunum fjórum æfðu meðal annars á hafsvæði norðan við Rybatjij-skaga, nyrsta odda rússneska meginlandsins. Á Kólaskaga eru heimahafnir langdrægra kjarnorkukafbáta Rússa. Hlutverk áhafnar dönsku vélarinnar var að taka myndir úr lofti.

Bandaríkjamenn áttu þarna tundurspillinn USS Ross, Bretar freigátuna HMS Sutherland og aðstoðarskipið RFA Tidespring og Norðmenn freigátuna Thor Heyerdahl. Bretar stjórnuðu æfingunni.

Rune Jakobsen, aðgerðastjóri norska hersins, varaði við því í júlí að stofnað yrði til heræfinga í Barentshafi, það hefði þann eina tilgang að ögra Rússum.

Öllum skipum er frjálst að fara ferða sinna í efnahagslögsögu ríkja, ráð yfir henni lúta aðeins að nýtingu auðlinda innan hennar eins og heitið gefur til kynna.

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, sagði að loknum fundi með dönsku utanríkismálanefndinni 10. september að Danir hefðu tekið þátt í æfingunni vegna þess að hún væri liður í að tryggja „frjálsar siglingar“ á hafsvæðinu. Æfingin ætti ekki að leiða til neinna vandræða þar sem hún hefði verið „fullkomlega gagnsæ“.

Valdimir Barbin sendiherra segir að þessi orð utanríkisráðherrans séu markleysa:

„Þessar flotaæfingar eru á fölskum forsendum þegar sagt er að þær snúist um siglingafrelsi, því hefur aldrei verið stefnt í hættu eða efast um gildi þess í Barentshafi,“ segir sendiherrann.

Hann hafnar einnig fullyrðingunni um „gagnsæi“:

„Gagnsæi gerir ráð fyrir að viðvörun sé gefin áður en æfingin hefst, fyrir liggi tæmandi upplýsingar um flotaæfinguna og eftirlitsmenn frá áhugasömum ríkjum séu á staðnum, ekkert slíkt gerðist þarna.“

Hann fullyrðir jafnframt að áhafnir herskipanna hafi um tíma slökkt á radarsvörum skipanna

Í Jyllands-Posten er rætt um málið við herfræðing við danska Forsvarsakademiet – varnarmálaháskólann – Anders Puck Nielsen, sérfræðing í flotamálum.

Hann tekur undir með rússneska sendiherranum, ummælin sem Jeppe Kofod lét falla um nauðsyn þess að tryggja frjálsar siglingar með æfingunni stæðust ekki.

„Þetta eru haldlaus rök. Til aðgerða í þágu siglingafrelsisins er ekki gripið nema frjálsum siglingum sé ógnað á einhvern hátt. Það hefur hvergi komið fram að Rússar ætluðu að loka fyrir siglingar um Barentshaf.“

Blaðið spyr um hvað æfingin hafi snúist.

„Í mínum huga snýst þetta um hernaðarlegan fælingarmátt og stórveldaríg,“ segir Anders Puck Nielsen.

Ritzau spurði Jeppe Kofod aftur hvers vegna Danir hefðu tekið þátt í æfingu sem Rússar gætu talið ögrandi og fjandsamlega.

Ráðherrann svaraði með tölvubréfi:

„Fyrir Dani sem fimmtu stærstu siglingaþjóð heims er mikilvægt að af danskri hálfu sé staðinn vörður um réttinn til frjálsra siglinga. Æfingin fór fram innan ramma alþjóðalaga og um var að ræða fullt gagnsæi gagnvart Rússum. Það er því erfitt að sjá hvernig Rússar geta litið á æfinguna sem ögrandi og fjandsamlega.“

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …