fbpx
Home / Fréttir / Rússneski herinn í vanda vegna skorts á íhlutum frá Úkraínu

Rússneski herinn í vanda vegna skorts á íhlutum frá Úkraínu

 

Rússneskur vígdreki
Rússneskur vígdreki

Rússneski herinn á mikið undir að fá íhluti frá Úkraínu. Á Sovéttímanum voru hergagnasmiðjur Sovétríkjanna að mestu í Úkraínu. Eftir að ófriður varð milli landanna á síðasta ári hefur smíði og viðhald rússneskra hergagna raskast og vopnasmiðjur í Úkraínu glíma við rekstrarvanda segir í grein eftir Katrine Bjerre Toft í Jyllands-Posten sunnudaginn 9. ágúst.

Til að nefna rússnesk hergögn frá Úkraínu má benda á stórar flutningaflugvélar, eldflaugar og freigátur. Áratuga löngum viðskiptum á þessu sviði lauk milli Rússa og Úkraínumanna í júní 2014 eftir að Rússar höfðu innlimað Krímskaga og aðskilnaðarsinnar hófu hernað í austurhluta Úkraínu.

Stjórnvöld ESB-ríkjanna og Bandaríkjanna hafa auk þess bannað sölu hergagna til Rússlands innan ramma viðskiptabannsins sem þau hafa sett á Rússa. Þetta leiddi meðal annars til þess að Frakkar riftu samningi við Rússa um smíði tveggja þyrlumóðurskipa af Mistral-gerð.

Dimitríj Rogozin, vara-forsætisráðherra Rússlands, sagði í júlí að þar til í fyrra hefðu íhlutir frá Úkraínu verið notaðir við framleiðslu á 186 gerðum rússneskra hergagna. Hann taldi að það yrði ekki fyrr en á árinu 2018 að Rússar hefðu náð tökum á framleiðslu þessara hluta.

Á vefsíðu BBC segir að þetta eigi meðal annars við um flutningaflugvélar af gerðinni Antonov auk fjölda freigáta sem rússneski flotinn geti ekki nýtt vegna þess að túrbínur í þær fáist ekki afgreiddar frá Úkraínu. Þá hafi Rússar orðið að hverfa frá mörgum áætlunum meðal annars um að senda hernaðarleg gervitungl á loft þar sem þá skorti eldflaugar.

Í Jyllands-Posten er rætt við Rússlandsfræðinginn Jens Worning Sørensen, fyrrv. aðalræðismann í St. Pétursborg og sendikennara við Kaupmannahafnarháskóla. Hann segir að Rússar séu ekki hinir einu sem beri skaða af því að viðskiptasambönd hafi slitnað:

„Vegna deilunnar glíma Úkraínumenn við mikinn efnahagsvanda. Ég tel að áður en mjög langt um líður verði raunveruleg skuldakreppa í Úkraínu. Pólitískar afleiðingar hennar eru ófyrirsjáanlegar.“

Tæplega 7.000 manns hafa fallið í átökum í Úkraínu undanfarna 17 mánuði og rúmlega milljón manns hafa lagt á flótta frá átakasvæðum. Engin lausn er í sjónmáli en Jens Worning Sørensen segir að vopnahléð sé heldur meira virt núna en fram í janúar 2015. Hann minnir á að sveitarstjórnakosningar séu boðaðar í Úkraínu í október og úrslit þeirra kunni að verða til að minnka spennu í samskiptum Rússa og Úkraínumanna og þar með stuðla að friði.

„Verði af sveitarstjórnakosningunum koma nýjar sveitarstjórnir til sögunnar og þær verða þátttakendur í að ákveða stjórn á landamærunum milli Rússlands og Úkraínu. Eins og staðan er núna er þó full ástæða til að efast um að gengið verði til sveitarstjórnakosninga í austurhluta Úkraínu á þann veg að allir aðilar telji úrslitin gild. Verði deilur vegna kosninganna eykst pólitíski vandinn enn frekar í kjölfar þeirra í haust.“

Þegar Jens Worning Sørensen er spurður hvort líkur séu á að stríðsátök hefjist að nýju í Úkraínu segir hann að einmitt um þessar mundir sakni aðskilnaðarsinnar í Úkraínu ábendinga frá Pútín.

„Aðskilnaðarsinnarnir vita ekki alveg hvernig stuðningi Kremlverja er háttað og það skapar þeim öryggisleysi sem getur skapað frekari óróleika,“ segir hann og þetta geti ef til vill einnig leitt til breytinga í valdastöðum innan raða aðskilnaðarsinnanna þar sem tekist sé hart á um völd og áhrif.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …