Home / Fréttir / Rússnesk sprengjuvél ferst í Asíu – tíðir óboðnir gestir við Ísland

Rússnesk sprengjuvél ferst í Asíu – tíðir óboðnir gestir við Ísland

Tupolev Tu-95M - Bear
Tupolev Tu-95M – Bear

Rússneska TASS-fréttastofan skýrði frá því þriðjudaginn 14. júlí að sama dag hefði langdræg sprengjuvél rússneska flughersins, Tupolev Tu-95MS, farist í æfingaflugi í Khabarovsk-héraði í austasta hluta Rússlands. Var vitnað í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins en jafnframt ónefndan heimildarmann um að drepist hefði á öllum fjórum hreyflum vélarinnar. Áhöfnin bjargaðist.

Æfingaflugið var farið án vopna um borð. Vélarnar geta borið kjarnorkusprengjur. Vélin brotlenti á óbyggðu landi og engin eyðilegging var þar. Áhöfnin varpaði sér frá borði í fallhlífum þegar augljóst var hvað verða vildi. Björgunarsveitir leita að henni að sögn varnarmálaráðuneytisins. Unnið er að rannsókn slyssins og verða flugvélar af þessari gerð ekki sendar á loft fyrr en að henni lokinni.

Tupolev Tu-95MS-vélar eru kallaðar Bear – björninn –  af NATO. Þær eru af sumum taldar tákn kalda stríðs aðgerða Sovétríkjanna sem sendu vélarnar til eftirlitsflugs víða um heim og ekki síst út á Norður-Atlantshaf. Þær hafa í áranna rás verið tíðir óboðnir gestir í nágrenni Íslands.

Varnarmálaráðuneytið í Moskvu sagði að tæknibilun hefði að öllum líkindum leitt til slyssins. TASS vitnar í heimildarmann sem segir að drepist hafi á öllum fjórum hreyflum vélarinnar.

Í frétt TASS segir að þetta sé ekki fyrsta slysið sem orðið hafi á TU-95 sprengjuvélum undanfarið. Hinn 8. júní rann TU-95MC-vél út af flugbraut í Armur-héraði vegna þess að eldur varð í hreyfli. Engin skotfæri voru um borð. Nokkrir í áhöfninni slösuðust þegar þeir yfirgáfu flugvélina.

Hinn 4. júní urðu tvö slys í rússneska flughernum. MiG-29 orrustuþota hrapaði til jarðar skammt frá Ashuluk og í Voronezh fórst Su-34 sprengjuvél í lendingu. Flugmennirnir björguðust í báðum tilvikum.

Hinn 3. júlí hrapaði MiG-29 orrustuþota í nágrenni Krasnodar, flugmaðurinn bjargaðist, og hinn 6. júlí brotlenti SU-24 í Khabarovsk-héraði, báðir flugmennirnir fórust.

Skoða einnig

Myndin er tekin 12. ágúst 2019 í lokuðu borginni Sarov um 370 km fyrir austan Moskvu. Fólk kom saman til að kveðja fimm rússneska kjarnorkuvísindamenn sem fórust þegar reynt var að bjarga ónýtri, kjarnorkuknúinni stýriflaug.

Upplýst um rússneskt kjarnorkuslys á norðurslóðum

  Rússnesk stjórnvöld hafa beitt þöggun til að kæfa umræður um mannskæða sprengingu í kjarnakljúfi …