fbpx
Home / Fréttir / Rússar telja sér í hag að Bretar vilji úr ESB

Rússar telja sér í hag að Bretar vilji úr ESB

Bretar fagna úrsögn úr ESB.
Bretar fagna úrsögn úr ESB.

Rússneskir stjórnmálamenn, blaðamenn og þjóðernissinar fagna niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi fimmtudaginn 23. júní um úrsögn Breta úr ESB (52%:48%). Þeir telja að Brusselmenn verði vinsamlegri í garð rússneskra stjórnvalda vegna þess auk þess sem þeir segja þetta merki um upplausn ESB og minnkandi áhrif Bandaríkjamanna.

Í rússneskum sjónvarpsstöðvum var talað um að sigur „Little England“ ylli „sannkallaðri martröð í Brussel“ og birtar voru myndir af Nigel Farage, leiðtoga UKIP-flokks sjálfstæðissinna, með bjórglas í hendi þar sem hann lýsti yfir „sigri venjulega fólksins, sigri heiðvirða fólksins“.

Rússneski ofurþjóðernissinninn Vladimir Zhirinovskíj lýsti úrslitum sem „hetjudáð“ bresku þjóðarinnar, hann sagði blaðamönnum að „breskir bændur, dreifbýlisfólk, verkamenn“ hefðu hafnað „sambandi peningamafíunnar, alþjóðasinna og allra hinna“.

Þingmaðurinn orðhvati spáði að eftir brottför Breta mundi „NATO hrynja, Schengen og evran“. Hann bætti síðan við: „Lengi lifi rúblan og þróun tengsla Rússlands við öll lýðræðisríki Evrópu!“

Gennadíj Zjuganov, leiðtogi rússneskra kommúnista, spáði einnig keðjuverkun í Evrópu. Frakkar, Ítalir og Hollendingar segðu næst skilið við ESB.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti forðaðist að ræða um atkvæðagreiðslu Breta áður en hún fór fram. Andstæðingar Pútíns sögðu hins vegar að úrsögn Breta yrði vatn á myllu hans.

Eftir að niðurstaðan lá fyrir viðurkenndi Pútín hins vegar að hún mundi „vafalaust hafa afleiðingar fyrir heiminn og fyrir Rússland“. Hann gagnrýndi ummæli Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, frá 17. maí um að Pútín mundi fagna úrsögn Breta. Sagði forsetinn að Rússar hefðu „ekki á nokkurn hátt“ haft áhrif á úrslitin. Pútín sagði að í atkvæðagreiðslunni hefði birst andstaða Breta við standa undir kostnaði við rekstur veikbyggðari hagkerfa innan ESB og að ummæli Camerons hefðu borið með sér „lágt stig stjórnmálamenningar“.

Pútín sló einnig á vangaveltur í Rússlandi um afnám viðskiptabanns á Rússa þegar hann sagðist ekki vænta neinna breytinga á banninu vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Sergei Sobjanin, borgarstjóri í Moskvu, taldi á hinn bóginn auknar líkur á að Rússum tækist að losna úr viðskiptabanni ESB eftir að Bretar tækju að halda á brott, þeir hefðu oft beitt sé hart gegn Rússum innan ESB og dregið aðra með sér. „Eftir að Bretar verða farnir verður enginn innan ESB sem berst af hörku fyrir banni á okkur,“ sagði hann.

Boris Titov, leiðtogi flokksins Réttur málstaður, hreyfði skoðun sem hefur nokkurn hljómgrunn í Moskvu um að Frakkar, Þjóðverjar og Rússar taki höndum saman gegn Bretum og Bandaríkjamönnum. Hann sagði á Facebook „Ég tel mikilvægasta langtíma árangurinn af þessu öllu að brottför þeirra mun slíta Evrópu frá Engilsöxum, það er frá Bandaríkjunum. Þetta er ekki sjálfstæði Bretlands frá Evrópu, þetta er sjálfstæði Evrópu frá Bandaríkjunum.“

Heimild: rfe/rl

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …