fbpx
Home / Fréttir / Rússar magna dreifingu upplýsingafalsana vegna kórónuveirunnar

Rússar magna dreifingu upplýsingafalsana vegna kórónuveirunnar

fef6768342ad5996ea221acbc340f336357f25249ebe727b7e1ee493574f85f4

Rússneskar njósnastofnanir hafa dreift upplýsingafölsunum um COVID-19-faraldurinn segir í nýbirtum gögnum sem sýna hvernig rússnesk yfirvöld reyna að villa um fyrir annarra þjóða mönnum og hafa áhrif á skoðanamyndun á Vesturlöndum.

Njósnastofnun rússneska hersins, GRU, hefur nýtt sér tengsl sín við InfoRos, upplýsingamiðstöð rússnesku ríkisstjórnarinnar, og aðrar vefsíður til að breiða út upplýsingafalsanir á ensku og áróður um faraldurinn, til dæmis með því að taka undir fullyrðingar Kínverja um að Bandaríkjaher hafi skapað veiruna auk þess að birta greinar um að hjúkrunaraðstoð frá Rússum kunni að draga úr spennu í samskiptum við bandarísk stjórnvöld.

Ásakanir opinberra bandarískra aðila í garð Rússa vegna þessa birtust þegar

Mandiant Threat Intelligence, deild innan FireEye netöryggisfyrirtækisins skýrði frá því að hún hefði greint samhliða áróðursherferð í austurhluta Evrópu sem hafði að markmiði að grafa undan NATO, meðal annars með upplýsingafölsunum um kórónuveiruna.

Á Facebook birtast merkingar á frásögnum sem koma af ríkisreknum rússneskum vefsíðum eins og RT og Sputnik. Fyrir stjórnendur samfélagsmiðla er hins vegar erfiðara að setja merkimiða á frásagnir sem birtast fyrst á síðum samsærissmiðla.

Margir textar sem eiga uppruna sinn innan rússneskra njósnastofnana birtust á InfoRos, síðu rússneskra stjórnvalda, og OneWorldPress, að nafninu til sjálfstæðri vefsíðu í Bandaríkjunum. Bandarískir embættismenn segja hana hins vegar undir handarjaðri GRU. Þá segja embættismennirnir að aðrar síður eins og GlobalResearch.ca taki reglulega undir GRU-áróður og dreifi honum.

Svo virðist sem frásagnir frá rússneskum njósnurum séu samdar af einhverjum sem hafa ensku að móðurmáli og þær skeri sig ekki úr vegna málfars. Þetta er mat bandarískra embættismanna sem segja að frá lokum maí til byrjun júlí hafi um 150 greinar vegna faraldursins birst í einu eða öðru formi á vegum rússneskra njósnastofnana.

OneWorld Press birti greinar um að faraldurinn væri tilraun til að ná undirtökum í heiminum. Hjá InfoRos og Tass-fréttastofunni birtist grein um að Bandaríkjamenn notuðu faraldurinn til að ráða skoðanamyndun í heiminum. Á vefsíðunni InfoBrics.org sagði frá því að ráðamenn í Peking teldu kórónuveiruna eiga uppruna í bandarísku sýklavopni.

Í nýju Mandiant-skýrslunni er hópurinn sem stendur að baki upplýsingafölsunum um COVID-19-faraldurinnar kallaður Ghostwriter sem í þessu tilviki mætti nefna Leigupenna á íslensku. Hópurinn byggir texta sína á falsfréttum eða falsbréfum og tilvitnunum sem látið er líta út eins og komi frá stjórnmálamönnum eða herforingjum í landinu sem verður fyrir atlögunni. Þá segir Mandiant hópinn styðjast við „að minnsta kosti 14 gervihöfunda“, það er fréttamenn eða bloggara sem áróðursherferðarstjórarnir drógu upp úr hatti sínum. Greinar þessar birtust á síðum eins TheDuran.com sem greinendur bandarískra njósnastofnana grandskoða.

Nefna má sem dæmi að búið var til bréf sem átti að vera frá Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, þar sem ítrekuð er rangfærslan um að NATO undirbúi brottför frá Litháen vegna útbreiðslu veirunnar. Þá var brotist inn í vefsíðu í Litháen og laumað þar inn grein með þeirri lygafrétt að þýskir hermenn hefðu svívirt grafreit gyðinga í bænum Kaunas í Litháen.

Heimild: NYT

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …