fbpx
Home / Fréttir / Rússar hafna tilboði Frakka um bætur vegna Mistral-skipanna

Rússar hafna tilboði Frakka um bætur vegna Mistral-skipanna

 

 

 

 

Mistral

 

Frönsk stjórnvöld eru sögð hafa sent ríkisstjórninni í Moskvu tillögu um leiðir til að binda enda á samning ríkjanna um Mistral-herskipin sem Frakkar hafa smíðað fyrir rússneska flotann. Franska ríkisstjórnin ákvað að rifta samningnum um smíði skipanna tveggja vegna árása Rússa á Úkraínu.

Herskipin eru þyrlumóður skip og hlutverk þeirra er meðal annars að flytja herafla til landgöngu á fjarlægum slóðum.

Rússneska blaðið Kommersant sagði frá því föstudaginn 15. maí að Frakkar byðust til að endurgreiða Rússum 865 milljónir dollara en áskildu sér jafntramt rétt til að selja skipin til þriðja aðila að eigin vali.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að Rússar hafi hafnað tillögunni. Þeir telji tilboð Frakka 113 milljónum dollara of lágt miðað við það sem eigin greiðslur til Frakka. Heildarkostnaður Rússa vegna samningsrofsins er að sögn heimildarmanna innan Kremlar 1,32 milljarðar dollara.

Þá kemur einnig fram að Rússar muni ekki heimila sölu skipanna til þriðja aðila fyrr en Frakkar bæti þeim tjón þeirra að fullu.

Franska ríkisstjórnin hefur sætt gagnrýni heima fyrir vegna málsins. Er hún sökuð um að fara illa með opinbera fjármuni og valda þjóðarbúinu skaða vegna þess hve illa hafi verið staðið að málum. Í franska vikublaðinu Le Point var sagt fimmtudaginn 14. maí að það kynni að kosta Frakka milli 2 og 5 milljarða evra að rifta samningnum við Rússa.

Franska ríkisstjórnin ákvað í nóvember 2014 að fresta framkvæmd samningsins við Rússa um smíði skipanna. Hann var gerður árið 2011 og var verðmæti hans þá talið nema 1,5 milljörðum dollara. Fyrra skipið, Vladivostok, átti að afhenda í nóvember 2014 og hið síðara, Sevastopol, árið 2016.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …