fbpx
Home / Fréttir / Rússar árétta kröfu um eignarhald á norðurpólnum

Rússar árétta kröfu um eignarhald á norðurpólnum

 

Norður Íshaf

Það vekur enga sérstaka undrun að Rússar geri nú kröfu um að landgrunnið á norðurpólnum sé viðurkennt sem eign þeirra og vekur ekki heldur uppnám að Danir og Kanadamenn hafa einnig krafist eignarhalds á hluta hafsbotnsins á þessu svæði, segir Sarah Kott í úttekt á vefsíðu Jyllands-Posten þriðjudaginn 4. ágúst. Hún er skrifuð í tilefni af formlegri kröfu Rússa á eignarhaldi á landgrunni utan 200 mílna í Norður-Íshafi.

Í greininni er minnt á að Rússar hafi þegar árið 2001 kynnt nefnd Sameinuðu þjóðanna afmörkun landgrunnsins þá skoðun sína að allt benti til þess að rússneska landgrunnið teygði sig yfir sjálfan pólinn undir yfirborði Norður-Íshafsins. Nefnd SÞ sagði Rússum þegar árið 2002 að þeir yrðu að rannsaka hafsbotninn betur áður unnt yrði að taka afstöðu til krafna þeirra.

Rússar hafa nú lokið þessum rannsóknum og komist að þeirri niðurstöðu að rússneska landgrunnið nái til Mendelejev-hryggjarins og Lomonosov-hryggjarins. Í þessu felst að krafist er viðurkenningar á eignarhaldi á 1,2 milljón ferkílómetrum undir yfirborði sjávar.

SÞ-nefndin viðurkenndi eignarhald Norðmanna á landgrunni í Norður-Íshafi þegar árið 2009.

Sarah Kott snýr sér til Johannesar Ribers Nordbys,  sjóliðsforingja við danska Forsvarsakademiet, Varnarmálaháskólann, hann stundar meðal annars rannsóknir vegna Norður-Íshafs. Hann segir:

„Geti Rússar fært skýr vísindaleg rök fyrir því að þetta sé framhald þeirra landgrunns og þar með eign þeirra, er eignarhaldið þeirra. Á norðurpólnum er í raun ekkert annað en norðurpóllinn. Umræður um málið hafa leitt til þess að ríki vilja gjarnan geta slegið eign sinni á pólinn því að almennt er litið þannig á hann skuli vera eign einhvers af stóru norðurskautsríkjunum. Haldi einhver að mikið magn olíu sé að finna á norðurpólnum er um misskilning að ræða. Póllinn hefur hins vegar mikið táknrænt gildi.“

Dönsk stjórnvöld lögðu í desember 2014 með umboði frá Grænlendingum fram kröfu um viðurkenningu á eignarhaldi á 895.000 ferkílómetrum landgrunns í Norður-Íshafi – það svæði teygir sig einnig yfir norðurpólinn. Þá sagði Christian Marcussen við rannsóknarstofnunina Geus að „mjög litlar líkur“ væru á að nýtanlegt magn af olíu og gasi fyndist á svæðinu.

 

SÞ-nefndin mun nú grandskoða rannsóknargögn sem Danir, Kanadamenn og Rússar hafa lagt fram til stuðnings kröfum um eignarhald á landgrunni utan 200 mílna í Norður-Íshafi.  Kann athugun nefndarinnar að taka nokkur ár. Johannes Riber Nordby segir að nefndin geti að lokum einfaldlega sagt við Dani, Kanadamenn og Rússa: „Þið hafið allir nokkuð til ykkar máls.“ Þessi niðurstaða leiði til þess að ríkisstjórnir landanna verði að semja sín á milli um niðurstöðuna. Þetta hafi Danir, Íslendingar og Norðmenn orðið að gera að fyrirlagi nefndarinnar vegna ágreinings um yfirráð á landgrunni norðan Færeyja. Minnt er á Rússar og Norðmenn deildu í um 40 ár um markalínu sín á milli í Barentshafi, viðræður af þessu tagi geti þess vegna staðið lengi.

 

Danski sjóliðsforinginn segir:

„Ýmsir óttast að til þess kunni að koma fái eitthvert ríkjanna, til dæmis Rússland, svar frá nefndinni á undan öðrum gleymi ráðamenn þess að lesa smáaletrið: Ekki skal tileinka sér neitt fyrr en mál annarra ríkja hafa verið afgreidd. Þá kunni að verða sagt af hálfu þessa ríkis: „SÞ hefur sagt að við eigum þetta.“ Byrji Rússar til dæmis að bora í hafsbotninn leiðir það til vandræða. Mér finnst hins vegar ólíklegt að eitthvað slíkt kunni að gerast því að eins og mál standa núna er engin vitneskja um að miklar auðlindir séu á umdeildum svæðum.“

Johannes Riber Nordby telur hins vegar að Danir eigi að huga að hernaðarlegri stöðu sinni á Norður-Íshafi því að Rússar hafi aukið herbúnað sinn á svæðinu. Í mars hafi til dæmis 38.000 hermenn á 3360 bryndrekum, 41 herskipi, 15 kafbátum og 110 flugvélum og þyrlum tekið þátt í rússneskri heræfingu á Norður-Íshafi.

„Flugherinn hefur ætíð sent vélar sínar til eftirlits og flogið í veg fyrir ókunnar vélar, einkum við Danmörku en einnig annars staðar og það getur vel gerst að þetta verkefni verði umfangsmeira þegar fram líða stundir þegar þessi niðurstaða er fengin,“ segir Johannes Riber Nordby við Jyllands-Posten, þriðjudaginn 4. ágúst.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …