fbpx
Home / Fréttir / Rússar amast við nýrri hernaðarstefnu Svía

Rússar amast við nýrri hernaðarstefnu Svía

 

swedish-army-soldiers-forces-in-afghanistan-001-29089790

Rússnesk stjórnvöld líta þannig á að ný hernaðarstefna Svía sem kynnt var fimmtudaginn 17, mars feli í sér ögrun við Rússland í anda aukinnar andúðar á Rússum innan NATO. Þetta kemur fram í frétt á rússnesku vefsíðunni Sputnik föstudaginn 18. mars.

Í tilkynningu sænsku herstjórnarinnar 17. mars segir að hernaðarstefnu hennar verði breytt á þann veg að aukin áhersla verði lögð á getu sænska hersins til að bregðast við ógn gegn fullveldi ríkisins.

Undanfarna áratugi hafa Svíar skipulagt herafla sinn með hliðsjón af verkefnum fjarri Svíþjóð, til dæmis í samvinnu við NATO í Afganistan og Líbíu, og undir merkjum Sameinuðu þjóðanna annars staðar í heiminum.

Í fréttinni á vefsíðunni Sputnik segir að í breytingunni felist að heraflanum verði skipað í „meiri sóknarstöðu“ og vísi sænskir ráðamenn til ótta við vaxandi yfirgang Rússa.

Sænski herinn verður efldur og miðast skipulag hans við að til sögunnar komi háþróuð vopnakerfi sem geri honum kleift að grípa til „langvinnra“ og samhæfðra, áhrifamikilla sóknaraðgerða gegn árás. Í stefnunni er einnig tekið mið af væntanlegri samvinnu við önnur Norðurlönd, Evrópusambandið og NATO komi til þess að Rússar geri atlögu að einhverju NATO-ríki.

Vitnað er í Allan Widman, formann varnarmálanefndar sænska þingsins sem sagði: „Við gátum ekki haldið áfram að draga úr mætti herafla okkar. Allt getur gerst nú á tímum. Gamla hernaðarstefnan var mótuð að loknu síðasta kalda stríði þegar Svíar lifðu í þeirri trú að Rússland mundi breytast í raunverulegt lýðræðisríki sem ekki ógnaði landi þeirra.“

Sputnik segir að Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, hafi „ætlað“ að réttlæta nýju sóknarstefnuna með því að tala um óvild Rússa. Hann hafi sagt: „Þessi nánar útfærða norræna varnarsamvinna mun skapa beint svar við yfirgangi Rússa.“

Rússneska fréttastofan segir að embættismenn í Kreml segi rangt að Rússar muni ráðast á ríki NATO eða ESB, þetta sé hugarburður fjölmiðlamanna. Þá er vitnað til þess að í júlí 2015 hafi Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagt að allt tal um þetta sýndi aðeins „hvernig bilað fólk hugsar og það aðeins í draumum sínum“.

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …