fbpx
Home / Fréttir / Rússar ætla að svara í sömu mynt komi bandarísk þungavopn í nágrenni þeirra

Rússar ætla að svara í sömu mynt komi bandarísk þungavopn í nágrenni þeirra

 

 

Heræfingar undir merkjum NATO hafa fraið fram æi Eystrasaltsríkjunum undanfarna daga - hér sést æfð landganga,
Heræfingar undir merkjum NATO hafa farið fram í Eystrasaltsríkjunum undanfarna daga – hér sést æfð landganga á strönd Svíþjóðar.

Rússneska utanríkisráðuneytið varar NATO við að auka umsvif sín í löndum sem eiga sameiginleg landamæri með Rússlandi. Reuters-fréttastofan hefur eftir talsmanni ráðuneytisins að það geti haft „hættulegar afleiðingar“.

„Við vonum að skynsemin sigri og að ástandið í Evrópu þróist ekki í hernaðarlega árekstra sem geta haft hættulegar afleiðingar,“ segir í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins sem var birt mánudaginn 15. júní.

Rússneska TASS-fréttastofan vitnar í heimildarmenn innan utanríkisráðuneytisins í Moskvu sem segja að hætta sé á að hernaðarstefna Bandaríkjanna á „austurvæng“ NATO missi tengsl við raunveruleikann og pólitískar óski Evrópubúa.

Eins og sagt hefur verið frá hér á síðunni birti The New York Times grein um helgina þar sem sagt var frá áformum innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins um að flytja hergögn fyrir allt að 5.000 manna lið í geymslur í NATO-löndum næst Rússlandi. Þar hafa Eystrasaltslöndin, Pólland, Rúmenía og Búlgaría verið nefnd til sögunnar auk Tékklands og Ungverjalands.

Háttsettur embættismaður í rússneska varnarmálaráðuneytinu sagði mánudaginn 15. júní að ykju Bandaríkjamenn vígbúnað sinn í þessum löndum mundu Rússar bregðast við með sambærilegum hætti innan landamæra sinna. Juríj Jakubov hershöfðingi sagði:

„Komi í raun til þess að bandarísk þungavopn, til dæmis bryndrekar, stórskotaliðspallar og annað slíkt verði flutt til Austur-Evrópu og Eystrasaltslandanna yrði um mesta sóknarskref Bandaríkjastjórnar og NATO að ræða síðan í kalda stríðinu. Rússar ættu ekki annan kost en að auka herafla sinn og búnað hjá herstjórnum sínum i vestri.“

Í Jyllands-Posten er vitnað til sérfræðinga sem segja að áformin um að koma þungavopnum fyrir í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum sé ekki unnt að túlka á annan hátt en eitt merkið um versnandi ástand öryggismála í Evrópu.  Ekki fari á milli mála að ætlunin sé að sýna Rússum að full alvara sé á ferðum.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …