fbpx
Home / Fréttir / Rússar að jafna bilið gagnvart flugher Bandaríkjamanna

Rússar að jafna bilið gagnvart flugher Bandaríkjamanna

Frank Gorenc hershöfðingi
Frank Gorenc hershöfðingi

Yfirmaður flughers Bandaríkjanna í Evrópu segir að uppbygging rússneska flughersins og nútímavæðing hans undanfarin ár sé „áhyggjuefni“ og hafi leitt til þess að Rússar standi nú næstum jafnfætis vestrænum þjóðum á þessu sviði.

Frank Gorenc hershöfðingi flutti erindi á ársfundi samtaka flughermanna mánudaginn 14. september og sagði „áhyggjuefni“ að Rússar væru að „jafna bilið“. Þeir hefðu fleiri og betri flugvélar en áður og ykju jafnframt getu sína með mannlausum flugvélum, drónum.+

„Ég get í hreinskilni sagt að forskot okkar í háloftunum er að minnka,“ sagði hann.

Rússar hefðu gert mikið átak eftir dapra reynslu sína í innrásinni í Georgíu árið 2008, þeir hefðu bæði bætt tæki sín og þjálfun flugmanna. Gorenc sagðist ekki endilega hafa áhyggjur af rússneskum flugmönnum um borð í orrustuþotum heldur einkum af ratsjám á jörðu niðri og skotflaugum tengdum þeim.

Rússar hefðu lagt mikla áherslu á smíði nýrra flugvéla en ekki síður á gríðarlega öflugar loftvarnir með skotflaugum á jörðu niðri. Þessum flaugum hefði verið komið fyrir umhverfis Krímskaga sem Rússar innlimuðu í mars 2014 og umhverfis Kaliningrad, hólmlendu Rússa milli Litháens og Póllands.

Hershöfðinginn sagði að sumar flaugarnar í Kaliningrad drægju inn í lofthelgi Póllands. Rússar gætu með öðrum orðum skotið niður flugvélar innan lofthelgi NATO, einn þriðji lofthelgi Póllands væri undir þetta seldur.

Að Rússum takist að sigrast á forskoti Bandaríkjamanna með öflugu loftvarnakerfi skapar ekki aðeins vanda fyrir bandaríska flugherinn heldur dregur úr gildi flugmóðurskipa sem hafa verið flaggskip flotans frá 1941 og þá hefur enginn bandarískur landhermaður fallið í árás óvina-flugvéla síðan 1953.

Allt frá 1991 hafa Bandaríkjamenn haft algjöra yfirburði í lofthernaði í öllum átökum þar sem þeir hafa komið við sögu. Þeir hafa einnig haft yfirhöndina á vígvellinum í krafti flughersins, sprengt stöðvar andstæðinga sinna og bjargað vinveittum liðsveitum.

„Hver sem fylgst hefur með hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna skilur að […] þeir hafa styrkt stöðu sína með því að koma í veg fyrir sókn inn á svæði, einkum með lofthernaði,“ sagði Gorenc. „Yfirburðir í lofti gera allt mögulegt, án þeirra er ekkert mögulegt.“ Heimild: RFE/RL

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …