fbpx
Home / Fréttir / Repúblíkaninn Robert Gates, fyrrv. varnarmálaráðherra, segir Trump „vonlausan“ í þjóðaröryggismálum

Repúblíkaninn Robert Gates, fyrrv. varnarmálaráðherra, segir Trump „vonlausan“ í þjóðaröryggismálum

Robert Gates
Robert Gates

Robert Gates, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, birti grein í The Wall Street Journal föstudaginn 16. september þar sem hann lýsti efasemdum um að forsetaframbjóðendurnir Hillary Clinton og Donald Trump hefðu hæfni til að gegna embætti Bandaríkjaforseta á viðunandi hátt.

Gates (72 ára) hefur gegnt ólíkum opinberum embættum í tíð átta forseta Bandaríkjanna á undanförnum 50 árum, þar á meðal sem varnarmálaráðherra (2006 til 2011) bæði í stjórnum George W. Bush og Baracks Obama. Hann segir að enn sé of margt óljóst til að átta sig á hvað felist í afstöðu Hillary og Trumps til utanríkismála.

„Hvorugur frambjóðandinn hefur skýrt á viðunandi hátt hvaða skoðun hann hefur á heraflanum, beitingu hervalds, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla áður en liðsafli er sendur til orrustu eða á stærri viðfangsefnum sem varða stríð og frið,“ segir Gates í greininni.

Hann vekur athygli að báðir forsetaframbjóðendurnir hafi látið við það sitja að fara almennum orðum um flókin úrlausnarefni sem blasi við þeim sem hlýtur kosningu í embættið.

Gates segir að þessi viðfangsefni séu mörg og flókin og þar geti menn auðveldlega ratað í gildru. Hann nefnir meðal annarra kröfu Kínverja um ráð yfir Suður-Kínahafi, kjarnorkuvopnadrauma Norður-Kóreumanna, ofríkistilburði Vladimírs Pútíns, yfirgang Írana og langvinn átök í Mið-Austurlöndum sem birtist skýrast í hryðjuverkum tengdum Daesh og í borgarastríðinu í Sýrlandi.

Gates telur að einkum í samskiptum við Kínverja þurfi „forseta með strategíska skarpskyggni og sýn, næmleika og leikni í alþjóðasamskiptum og stjórnmálum“. Hann telur að forsetaframbjóðandi eins og Donald Trump búi ekki yfir þessum kostum. Gates víkur að harðlínustefnu Trumps gagnvart Kínverjum með þessum orðum: „Allt sem við í raun vitum snýst um að Trump ætli að hefja viðskiptastríð við þjóð sem Bandaríkjamenn skulda meira en milljón milljónir (trilljón) dollara.“

Hann finnur að andstöðu Hillary Clinton við fríverslunarsamning Bandaríkjanna og Kyrrahafsríkja, Trans-Pacific Partnership, samning sem hún studdi upphaflega. Telur Gates að verði samningurinn að engu verði það „auðveldur pólitískur og efnahagslegur ávinningur Kínverja“.

Gates, sem er repúblíkani og sat sem slíkur í embætti varnarmálaráðherra hjá Obama, fer hörðustu gagnrýnisorðunum um Trump, frambjóðanda repúblíkana. Stóryrði og dylgjur sem hafi valdið ugg meðal bandamanna Bandaríkjamanna um heim allan einkenni kosningaboðskap Trumps um utanríkismál. Gates segir Trump „vonlausan“ í þjóðaröryggismálum.

Hann segir að bæði Hillary og Clinton glími við trúnaðarbrest í utanríkismálum en þó sé „Donald Trump í eigin sérflokki“ í því tilliti.

Trump lét Gates ekki eiga neitt inni hjá sér og setti á Twitter eftir að greinin birtist: „Ég hef aldrei hitt [hann]. Hann þekkir ekkert til mín. Lítið hins vegar á árangurinn undir hans leiðsögn – algjör hörmung!“

Gates sagði meðal annars um Trump í blaðagreininni:

„Heimurinn sem við okkur blasir er of hættulegur og of flókinn til að fá sem forseta mann sem heldur að hann, og hann aleinn, hafi svör við öllu og þurfi ekki að hlusta á neinn […] Ég tel að Trump sé vonlaus, að minnsta kosti í þjóðaröryggismálum. Af þrjósku veit hann lítið um heiminn og hvernig á að leiða þjóð okkar og ríkisstjórn og hann hefur ekki skapgerð til að leiða þá sem starfa innan hers okkar. Hann skortir hæfni og hæfi til að verða æðsti yfirmaður heraflans.“

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …