fbpx
Home / Fréttir / Reglubundin æfing bandarískra kjarnorkukafbáta í Norður-Íshafi

Reglubundin æfing bandarískra kjarnorkukafbáta í Norður-Íshafi

Hér sést mynd frá bandaríska flotanum af ísstöð sem reist hefur verið á Norður-Íshafi.
Hér sést mynd frá bandaríska flotanum af ísstöð sem reist hefur verið á Norður-Íshafi.

Tveir bandarískir kjarnorkukafbátar af Los Angeles-gerð komu mánudaginn 14. mars að hafísflotastöð Bandaríkjanna, Ice Camp Sargo, sem reist hefur verið til bráðabirgða fyrir 80 manns í Beaufort-hafi um 200 mílur norður af Prudhoe-flóa í Alaska

Bátarnir taka þátt í fimm vikna æfingu, Ice Exercise (ICEX 2016),  sem hófst 29. febrúar þar af stunda rúmlega 200 manns vísindarannsóknir í fjórar vikur. Markmiðið er að þjálfa áhafnir kafbátanna í Norður-Íshafi og jafnframt að afla vísindalegrar þekkingar um ástandið í hafinu og á norðurslóðum. Kafbátarnir verða á sveimi um Norður-Íshafið auk þess sem þeim verður siglt úr kafi á Norðurpólnum.

Rannsakendur frá fjórum löndum, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Noregi taka þátt í æfingunni. Starfsmenn frá rannsóknarstofnun norska hersins eru til dæmis í Camp Sargo. Ætlunin er að gera á þriðja tug tilrauna á æfingartímanum. Talsmaður bandaríska flotans bendir á að flotinn hafi í rúmlega 65 ár haldið úti skipum og kafbátum á Norður-Íshafi.

Talsmaðurinn áréttaði að æfinguna nú ætti ekki að skoða sem andsvar við aðgerðum Rússa eða lið í hervæðingu Norður-Íshafsins. ICEX-æfingar hefðu verið stundaðar árum saman. Nú yrðu meðal annars gerðar tilraunir með mannlausa kafbáta, neðansjávar-dróna, sem yrðu notaðir til að safna rannsóknargögnum í hafinu og á botni þess. Einnig yrðu notuð flygildi, drónar til að kanna aðstæður úr lofti og til að finna ísbirni í nágrenni við hafísstöðina.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …