fbpx
Home / Fréttir / Pútín leikur sér að kjarnorkuvopnum

Pútín leikur sér að kjarnorkuvopnum

Þessi keisaralega brjóstmynd af Vladimír Pútín er í nágrenni St. Pétursborgar - hún birtist með greininni í Frankfurter Allgemeine Zeitung.
Þessi keisaralega brjóstmynd af Vladimír Pútín er í nágrenni St. Pétursborgar – hún birtist með greininni í Frankfurter Allgemeine Zeitung.

Umræður um hernaðarstefnu Rússlands og stöðu NATO vaxa í réttu hlutfalli við vaxandi spennu vegna árekstranna í Úkraínu og innlimunnar Krímskaga í Rússland í mars 2014. Hér var fimmtudaginn 18. júní birt endursögn á grein eftir Magnus Nordenman, öryggismálasérfræðing í Bandaríkjunum, um það hvernig staða öryggismála á Eystrasalti hefur öðlast nýjan svip. Hér fyrir neðan birtist lausleg þýðing á grein sem Nikolas Busse, aðstoðar-utanríkismálaritstjóri Frankfurter Allgemeine Zeitung birti í blaðinu fimmtudaginn 18. júní undir fyrirsögninni: Kjarnorkuleikur Pútíns.

Í kynningu á greininni segir að Rússar hóti nú að nýju með kjarnorkusprengjum og nýjum langdrægum eldflaugum. Á Vesturlöndum séu menn ekki undir þessar hótanir búnir. Stórkallalegar yfirlýsingar Pútíns séu hins vegar ekki til marks um styrk hans heldur veikleika.

 

Hér er greinin eftir Nikolas Busse í heild:

Rússneski forsetinn hefur nýlega kynnt nýjar langdrægar eldflaugar til sögunnar. Í raun er ekkert óeðlilegt við það, reglulega þarf að skipta út slíkum flaugum. Í ljósi Úkraínu-deilunnar er hér hins vegar um kjarnorkuvopnahótun að ræða og ekki hina fyrstu.

Ýmsir rússneskir stjórnmálamenn, þeirra á meðal Pútín sjálfur, hafa gefið til kynna að hugsanlega verði kjarnorkuvopnum beitt gegn vestrænum ríkjum. Oftar en einu sinni hafa langdrægar sprengjuvélar sem geta borið kjarnorkuvopn verið gerðar út af örkinni: þær hafa meðal annars æft árásir á evrópskar stórborgir. Í Moskvu hafa menn auk þess vakið máls á þeim kosti að koma kjarnorkuvopnum fyrir á hinum innlimaða Krímskaga. Í Kaliningrad (Königsberg) hafa þegar verið settar niður eldflaugar sem geta borið kjarnaodda.

Hvað sem öðru líður gildir hið sama hér og svo oft þegar Rússar eiga í hlut, þetta er ekki merki um styrkleika heldur veikleika. Rússneskum forystumönnum varð (réttilega) ljóst af íhlutunum Bandaríkjamanna á tíunda áratugnum, einkum í Kosóvo-stríðið, að þeir stóðu illa að vígi gagnvart Bandaríkjamönnum varðandi venjulegan vopnabúnað. Á þeim tíma höfðu ráðamenn í Moskvu áhyggjur af að Bandaríkjamenn mundu einnig láta átökin í Tjetstjeníu sig varða.

Kúvending í styrkleika

Til að bregðast við þessu var ný rússnesk hernaðarstefna mótuð árið 2000, í henni felst að gripið verði til kjarnorkuvopna til að bregðast við „umfangsmikilli árás með venjulegum vopnum“. Rússar kenna þessa stefnu við „Deeskatalation“ af-stigmögnun þar sem að baki henni búi sú hugsun að með takmarkaðri kjarnorkuárás megi knýja óvininn til að hugsa sig um tvisvar áður en hann grípur til vopna. Stefnan var undirrituð af Pútín við upphaf fyrsta kjörtímabils hans sem forseta.

Í þessu felst kúvending í styrkleika miðað við kalda stríðið. Þá stóð NATO verr að vígi varðandi venjulegan vígbúnað en Varsjárbandalagið. Þess vegna áskildi NATO sér rétt til að grípa til kjarnorkuvopna yrði á það ráðist. Rússar eru nú í þessari stöðu. Þeir hafa undanfarin ár gert ráðstafanir til að efla venjulegan herafla sinn. Þeir geta hins vegar ekki háð hátæknistríð í kappi við Bandaríkjamenn. Þess vegna leggja þeir áherslu á kjarnorkuvopnin, af þeim eiga þeir nóg.

Meginvandinn er að Pútín telur greinilega ekki aðeins varnaraðgerðir felast í þessari stefnu heldur einnig leið til að treysta bakgrunn íhlutunar Rússa. Þetta má ótvírætt ráða af ummælum hans um Krím. Margir hafa séð rússneska sjónvarps-heimildarmynd um innlimun Krímskaga þar sem Pútín segir að hann hafi verið tilbúinn til að setja rússneska kjarnorkuheraflann í viðbragðsstöðu á meðan unnið var að innlimuninni.

Á það reyndi ekki í þessu sérstaka tilviki en frásögnin vísar hins vegar til sviðsmyndar sem skoða verður af alvöru frá hernaðarlegum sjónarhóli: Rússar kunna að láta að sér kveða í öðrum löndum með „litlum grænum mönnum“ eða jafnvel venjulegum hermönnum og jafnframt hóta ráðamönnum á Vesturlöndum með kjarnorkuárás grípi þeir til varnar með vopnum. Yrði þessari aðferð beitt gegn einhverju bandalagsríki, til dæmis Eistlandi, stæði NATO frammi fyrir ákvörðun um hvort taka ætti áhættu af kjarnorkustríði með því að sinna skyldunni um að veita bandamanni aðstoð.

Á Vesturlöndum íhuga menn nýja kjarnorkuvopnastefnu

Hvorki í Bandaríkjunum né Evrópu hafa stjórnmálamenn svör við spurningum um viðbrögð við þessu. Á árunum sem liðin eru frá því að Rússar tóku að hrinda nýrri kjarnorkustefnu sinni í framkvæmd hafa herir Vesturlanda háð stríð í Írak og Afganistan. Heil kynslóð stjórnmálamanna og herforingja hefur ekki kynnst annarri kjarnorkuógn en frá ríkjum eins og Íran og Norður-Kóreu. Að öðru leyti hefur málið snúist um afvopnun. Þegar Obama forseti kynnti árið 2009 „sýn“ sína um kjarnorkuvopnalausan heim var rússneska stefnan þegar orðin níu ára gömul. Í Hvíta húsinu tók greinilega enginn hana alvarlega og alls enginn í Evrópu.

Nú breytist þetta. Á Vesturlöndum hafa menn, einnig þýska ríkisstjórnin, opinberlega gagnrýnt boðskap Pútíns. Nú um þessar mundir virðist ekki þörf á meiru því að hættan á rússneskri kjarnorkuárás er lítil: Í Moskvu fara menn ekki í neinar grafgötur um afleiðingar gagnárásar. Innan NATO hljóta menn hins vegar að leiða hugann alvarlega að kjarnorkuvörnum því að bandalagið skortir meira að segja nothæfa stefnu miðað við ríkjandi aðstæður. Undan þessu verður varla vikist þegar sést af hve miklu stigmögnunarafli Rússar ætla að fylgja fram landfræðilegum og pólitískum markmiðum sínum.

Á þessu sviði hefur Pútín einnig hrundið af stað þróun sem dregur mun stærri dilk á eftir sér en fellur að skammtímamarkmiðum hans á Krím og í Donbass-héraði [í austurhluta Úkraínu]. Engin önnur kjarnorkuþjóð ögrar með vopnabúnaði sínum á sama hátt og Rússar gera. Í stjórnarskrifstofum um heim allan taka menn rækilega eftir því og festa í bækur sínar. Á sínum tíma afsöluðu Úkraínumenn sér meira en þúsund kjarnaoddum sem þeir áttu í sameiginlegu þrotabúi Sovétríkjanna, í staðinn skyldu þeir öðlast pólitíska ábyrgð (einnig Rússa) á óskertum landsyfirráðum sínum, örlög Úkraínumanna nú sýna vel hvað gerast kann sé hopað vegna fælingarmáttarins. Hafi einhvern tíma mátt ætla að skeið kjarnorkuvopnanna væri á enda runnið er sá tími liðinn.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …