fbpx
Home / Fréttir / Noregur: Löggjöf í smíðum til að stöðva straum hælisleitenda frá Rússlandi

Noregur: Löggjöf í smíðum til að stöðva straum hælisleitenda frá Rússlandi

Storskog-landamærastöðin-við-Kirkenes-í-Noregi
Storskog-landamærastöðin-við-Kirkenes-í-Noregi

 

Farand- og flóttafólk leggur áfram leið sína frá Rússlandi til Noregs um Storskog-landamærastöðina skammt frá Kirkenes þótt vetur sé genginn í garð í Norður-Noregi. Í fyrstu settu Sýrlendingar mestan svip á aðkomufólkið, nú fjölgar hins vegar Afgönum í hópnum.

Fólkið á það sameiginlegt að hafa dvalist lengur eða skemur í Rússlandi annaðhvort sem ferðamenn eða með dvalarleyfi. Sumir hafa meira að segja öðlast rússneskan ríkisborgararétt.

Tæplega 4.000 hælisleitendur hafa nú komið til Noregs í gegnum Storskog-stöðina. Í smábænum Kirkenes hafa yfirvöld enga burði til að taka við þessum fjölda aðkomufólks og er flogið með það þaðan til annarra bæja.

Bæjaryfirvöld í Kirkenes vona að ríkisstjórnin nái tökum á ástandinu með nýrri löggjöf sem hljóti flýtimeðferð í Stórþinginu.

„Þeir sem koma í gegnum Storskog eru hinir efnuðu, þeir sem hafa ráð á að kaupa örugga ferð. Það er áhyggjuefni að konur og börn sjást varla í hópnum. Noregur er orðinn að hinni nýju Hollywood – staðurinn þar sem finna má hamingju auk öryggis,“ sagði Ann-Karin Abrahamsen (51 árs), fædd og uppalin í Kirkenes, við norsku TV 2 sjónvarpsstöðina.

Ríkisstjórnin vill að útlendingalögunum verði breytt á þann veg að norsk yfirvöld megi neita að taka við og afgreiða hælisumsóknir frá þeim sem dveljast löglega í Rússlandi. Á þeim grunni megi brottvísa þessu fólki strax við landamærin. Ekki á að vera unnt að áfrýja afgreiðslunni.

Áform ríkisstjórnarinnar eru að leggja frumvarpið með breytingartillögunni fram á þingi föstudaginn 13. nóvember með tilmælum um að það verði orðið að lögum föstudaginn 20. nóvember.

Norsk stjórnvöld hafa lýst undrun sinni yfir straumi fólksins yfir landamærin til Noregs á sama tíma og allt er í eðlilegu horfi á landamærum Finnlands og Rússlands. Því hefur verið hreyft af ýmsum að rússnesk yfirvöld hafi lagt blessun sína yfir þessa atburðarás.

Rússar segja að ekki sé unnt að banna þeim sem dveljast löglega í landinu að yfirgefa það. Rússneskir landamæraverðir krefjast hins vegar Schengen-vegabréfsáritunar af þeim sem vilja fara til Finnlands en ekki hinum sem vilja fara til Noregs. Bæði löndin eru þó aðilar að Schengen-samstarfinu.

Lögregla í Kirkenes og starfsmenn norska Rauða krossins segja að ýmislegt bendi til þess að hælisleitendurnir hafi fengið vitneskju um að þeir hefðu frelsi til að fara yfir landamærin.

„Engu er líkara en einhver hafi lokkað marga þeirra hingað. Þeir undrast þegar við spyrjum þá hvort þeir séu með Schengen-áritun og verða skelkaðir þegar við segjum að hugsanlega verði þeir sendir til Kabúl.“ segir Ellen Katrine Hætta, lögreglustjóri í Øst-Finnmark lögregluumdæminu, við blaðið VG um afganska hælisleitendur.

Hennar skoðun er að einhver hagnist á því að telja fólkinu trú um að vandræðalaust sé að halda til Noregs. Þá vísi margir til þess að norska stórþingið hafi samþykkt að tekið skuli á móti 8.000 kvóta-flóttamönnum á þremur árum í Noregi. Litið sé á það sem opið boð þótt um sé að ræða kvóta-flóttafólk frá Sýrlandi sem dvelst í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …