Home / Fréttir / Norðmenn og Bandaríkjamenn undirbúa olíuvinnslu á heimskautasvæðum – ESB-þingið á öndverðum meiði

Norðmenn og Bandaríkjamenn undirbúa olíuvinnslu á heimskautasvæðum – ESB-þingið á öndverðum meiði

Olíuvinnsla á norðurslóðum.
Olíuvinnsla á norðurslóðum.

Norska ríkisstjórnin tilkynnti mánudaginn 13. mars að markmið hennar sé að veita heimild til olíuleitar á 93 svæðum í Barentshafi þegar hún gefur 24. leyfi sitt síðar á árinu. Norsk yfirvöld hafa aldrei áður veitt svo víðtæka heimild til olíuvinnslu á norðurslóðum.

Tilkynning og upplýsingar um þetta hafa nú verið sendar til 121 einka- og opinberra aðila sem verða að bregðast við henni fyrir 2. maí 2017 hafi þeir áhuga á að vera með í útboðinu. Þess er vænst að leyfisveitingar verði kynntar fyrir lok maí og fyrirtæki verða að senda inn tilboð sín fyrir árslok segir í fréttatilkynningu norska olíu- og orkumálaráðuneytisins.

Nýju svæðin ná yfir norska hluta Barentshafs frá austri til vesturs, norðri til suðurs. Allt í allt 47 svæði eru á 73 breiddargráðu. Ekkert svæðanna í 24. umferðinni liggur beint upp að markalínunni gagnvart rússneska svæðinu í Barentshafi. Alls eru þó 12 svæði í suðaustur horni norska hluta Barentshafs undan strönd Vardanger-skaga.

Frá Bandaríkjunum berast fréttir um að Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblíkana í Alaska-ríki, telji að Donald Trump hafi áhuga á að aflétta banni á olíu- og gasvinnslu í heimskautahéruðum Alaska.

Frá þessu var sagt á síðu fréttastofunnar Bloomberg föstudaginn 10. mars. Þar kemur fram að það muni líklega taka mörg ár að hrinda áformum um olíu- og gasleit á þessum stöðum af stað vegna skriffinnsku og stjórnsýsluákvæða.

Lisa Murkowski hefur oft komið til Íslands og meðal annars tekið þátt í fundum Hringborðs norðursins (Arctic Circle). Hún er formaður orku- og auðlindanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Talið er að finna megi 27 milljarða tunna af olíu á heimskautasvæðum Bandaríkjanna og gífurlegt magn af gasi. Shell varði á rúmum sjö árum um 8 milljörðum dollara í árangurslausa leit að olíu á hafsbotni milli Alaska og Síberíu í Rússlandi. Leitinni var hætt árið 2015.

Í frétt Bloombergs segir að teikn séu á lofti um að hagur þeirra sem leita að olíu í og við Alaska kunni að vænkast. Spænska olíufélagið Repsol SA tilkynnti fimmtudaginn 9. mars að það hefði fundið 1,2 milljarði tunna á North Slope í Alaska, er það mesta olía sem fundist hefur á landi í Bandaríkjunum í þrjá áratugi. Árið 2016 tilkynnti lokaða fyrirtækið Caelus Energy Corp. að það hefði fundið að minnsta kosti 2 milljarða tunna af vinnanlegri olíu djúpt á botni Smith-flóa í norðvestur Alaska.

Á sama tíma og yfirvöld í Noregi og Bandaríkjunum ráðgera aukna olíu- og gasvinnslu á norðurslóðum búa þingmenn á ESB-þinginu sig undir að samþykkja ályktun um norðurslóðir þar sem lagst er gegn olíuborunum á heimskautasvæðum aðildarríkja ESB og EES. Tillagan nær því til Noregs.

Ályktunin hefur ekki lagagildi en verði hún samþykkt gefur hún til kynna að þingmennirnir séu andvígir olíuvinnslu á heimskautasvæðum. Greidd verða atkvæði um ályktunina á ESB-þinginu fimmtudaginn 16. mars.

 

 

 

Skoða einnig

Polar Star einn fjögurra gamalla ísbrjóta Bandaríkjanna,

Donald Trump gefur fyrirheit um nýjan ísbrjót

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað að láta smíða „fyrsta þunga ísbrjót Bandaríkjanna í rúm 40 …