fbpx
Home / Fréttir / NATO snýst gegn áróðursstríði Rússa – eykur samstarf við Finna og Svía

NATO snýst gegn áróðursstríði Rússa – eykur samstarf við Finna og Svía

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að loknum fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna í Antalyu í Tyrklandi fimmtudaginn 14. maí að ráðherrarnir hefðu ákveðið að grípa til aðgerða gegn blendingshernaði (hybrid warfare) Rússa gegn Úkraínu. Hann sagði jafnframt á fundi með blaðamönnum að starf og stefna NATO tæki nú mestu breytingum frá lokum kalda stríðsins.

Stoltenberg sagði að innlimun Krím í Rússland og framhald ögrana í austurhluta Úkraínu væru klassísk dæmi um blendingsstríð. Hann sagði þar um að ræða blöndu ógnana, meðal annars með venjulegum vopnum, undirróðurs gegn löglegum stjórnvöldum,og tölvuárása. Hann sagði:

„Við okkur blasir einnig háþróuð miðlun rangra upplýsinga og viðleitni til að virkja menn til óhæfuverka. Besta svar okkar við röngum upplýsingum er að miðla upplýsingum sem mótast af lýðræðisgildum okkar, málfrelsi og opnum þjóðfélögum.“

Framkvæmdastjórinn fagnaði boði Breta um að fjármagna upplýsingaherferð gegn rússneska áróðrinum. Þá hafi Bretar og Tyrkir sagt að þeir muni auka framlög til auka varnir gegn blendingsárásum. Öflugar ríkisstjórnir gætu staðist slíkar árásir, aðrar þyrftu aðstoð til þess.

„Aukinn stöðugleiki meðal nágranna okkar eykur öryggi okkar,“ sagði Stoltenberg. „Við verðum því að gera meira fyrir nágranna okkar og með nágrönnum okkar.“

Á fundi utanríkisráðherranna var einnig rætt um leiðir til auka samvinnu NATO við Svía og Finna.

„Við höfum ákveðið að kanna hvernig fjölga megi samráðsfundum og auka miðlun upplýsinga um það sem er að gerast á Eystrasaltssvæðinu og nágrenni svo að mynd okkar af því sé sem skýrust,“ sagði Stoltenberg. „Við munum einnig kanna hvernig við getum efnt til meiri æfinga með Finnum og Svíum.“

 

Stolt

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …