fbpx
Home / Fréttir / Mikill breskur herfloti í Asíu-leiðangri

Mikill breskur herfloti í Asíu-leiðangri

Flugmóðurslipið HMS Queen Elisabeth
Flugmóðurslipið HMS Queen Elisabeth

Stærsti herfloti Breta frá því í Falklandseyja-stríðinu árið 1982 siglir út á heimshöfin í næsta mánuði þegar nýja 65.000 lesta flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth verður í forystu í 28 víkna jómfrúarferð skipsins alla leið til Japans.

Í fylgd með flugmóðurskipinu verða tveir tundurspillar HMS Defender og HMS Diamond; freigáturnar HMS Kent og HMS Richmond og stuðningsskip flotans Fort Victoria og Tidespring. Þá verður kjarnorkuknúinn kafbátur af Astute-gerð einnig hluti leiðangursins. Frá bandamönnum Breta koma bandaríski tundurspillirinn The Sullivans og hollenska freigátan HNLMS Evertse.

Um borð í flugmóðurskipinu verða átta breskar F-35B Lightning orrustuþotur. Í flotadeildinni verða einnig fjórar flota-árásarþyrlur af Wildcat-gerð frá Leonardo, sjö Leonardo Merlin Mk2 gagnkafbátaþyrlur og þrjár Merlin Mk4 árásarþyrlur.

Breska varnarmálaráðuneytið segir að með því að senda flotadeildina til Indlandshafs og Kyrrahafs árétti bresk stjórnvöld þá stefnu sína að auka hlutdeild sína í viðskiptum og öryggismálum á þessum slóðum.

Stefnt er að því að flugmóðurskipið heimsæki meira en 40 lönd í leiðangrinum en þar ber hæst Indland, Japan, Suður-Kóreu og Singapúr.

Skipin fara um Suður-Kínahaf í óþökk Kínverja sem gera kröfu til yfirráða þar en af annarra hálfu er litið á hafið sem alþjóðlega siglingaleið, opna öllum.

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …