fbpx
Home / Fréttir / Merkel vill ekki að Grikkir séu látnir sigla sinn sjó vegna flótta- og farandfólks

Merkel vill ekki að Grikkir séu látnir sigla sinn sjó vegna flótta- og farandfólks

Angela Merkel ræðir við  sjónvarpskonunaAnne Will.
Angela Merkel ræðir við sjónvarpskonuna Anne Will.

Við getum ekki látið Grikki sigla sinn sjó, sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari í sjónvarpsviðtali að kvöldi sunnudags 28. janúar. Vísaði kanslarinn þar til þess að Grikkir gætu ekki setið einir uppi með fjölda flótta- og farandfólks vegna þess að landamærum þeirra í norður yrði lokað til að hindra fólkið í að halda þá leið til Mið-Evrópu og Þýskalands.

Grísk stjórnvöld glíma nú við versta efnahagsvanda í síðari tíma sögu sinni, við hann bætist nú vandi vegna tugþúsunda aðkomumanna sem streyma til landsins á leið frá Asíu og Mið-Austurlöndum til Evrópu. Fólkið er strandaglópar í Grikklandi vegna þess að myndast hefur óformlega samstaða Balkanríkja undir forystu Austurríkismanna um að loka landamærum sínum fyrir fólkinu sem að meirihluta vill sækja um hæli í Þýskalandi.

Landamæri Makedóníu gagnvart Grikklandi hafa nú verið lokuð í nokkurn tíma og á Balkan-leiðinni svonefndu hafa ríki gert ráðstafanir til að hindra för aðkomufólks. Talið er að þetta hafi leitt til þess að 22.000 manns séu nú fastir í Grikklandi. Yiannis Mouszalas, útlendingamálaráðherra Grikklands, segir að talan geti hækkað í 70.000 á næstu vikum. Ráðherrann sagði við Mega TV í Grikklandi sunnudaginn 28. febrúar að stjórnvöld mætu stöðuna á þann veg að í næsta mánuði myndu 50.000 til 70.000 manns hafa lokast inni í landinu.

Angela Merkel sagði í sjónvarpsviðtalinu á sunnudag að evrópsk stjórnvöld gætu ekki leyft að Grikkland yrði „upplausn að bráð“. Hún lagði áherslu á að EB gæti ekki „látið þetta land sigla sinn sjó … Ekki var unnið að því að halda Grikklandi innan evru-svæðisins til þess eins að það verði nú upplausn að bráð,“ sagði hún.

Merkel minnti á að innan ESB hefði mönnum tekist að ná tökum á alþjóðlegu og evrópsku fjármálakreppunni og áréttaði þannig að sambandið gæti einnig fundið leiðir til að leysa flóttamannavandann.

Hún lagði áherslu á að eina lífvænlega leiðin til að leysa flóttamannavandann væri að framkvæma áætlunina um að dreifa hælisleitendum með valdi til ESB-landa og skapa þannig svigrúm fyrir Grikki og Ítali auk framkvæmdar samningsins við Tyrki um að þeir haldi aftur af fólki sem leitar frá Tyrklandi til grísku eyjanna.

„Ég hef ekkert plan B,“ sagði Merkel og bætti við að hún berðist „fyrir þessari leið“.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …