fbpx
Home / Fréttir / Matvælastríðið veldur Pútín erfiðleikum – hundruð þúsunda mótmæla á netinu

Matvælastríðið veldur Pútín erfiðleikum – hundruð þúsunda mótmæla á netinu

Jarðýta eyðir bannfærðum matvælum.
Jarðýta eyðir bannfærðum matvælum.

 

Rússnesk stjórnvöld hafa tekið til við að eyðileggja matvæli eins og um „venjulega lögregluaðgerð“ sé að ræða segir í The Moscow Times sunnudaginn 9. ágúst. Blaðið bætir við að hér sé þó ekki um neina „venjulega aðgerð“ að ræða. Þvert á móti sé þetta „augljós barbarismi, móðgun við samfélagið og afneitun á að viðurkenna mikilvægustu siðferðilegu hlið málsins“.

Hér um að ræða matvæli á borð við kjöt, ávexti og mjólkurvörur frá Bandaríkjunum og Evrópulöndum sem fyrir ári settu viðskiptabann á Rússland vegna innlimunar Krím og hernaðar aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Rússar neita allri aðild að því sem gerist í Úkraínu.

Rússneska landbúnaðarráðuneytið lagði í lok júlí til að til þess ráðs yrði gripið. Vladimír Pútín forseti ritaði undir tilskipun um málið 29. júlí.

Rosselkhoznadzor, rússneska matvælaeftirlitið, tilkynnti að eyðing á fyrstu bönnuðu matvælunum hæfist skömmu síðar – um væri að ræða nokkur hundruð tonn – en lögð var áhersla á að enn væri aðeins um „lítið magn“ að ræða.  Opinberlega var hafist handa við eyðinguna fimmtudaginn 6. ágúst. Í The Moscow Times er spurt: Hvað býr að baki þessu opinbera stríði gegn matvælum?

Alexei Levinson, greinandi við skoðanakannana fyrirtækið Levada Center, telur þá kenningu ekki sannfærandi að aðgerðinni sé ætlað að efla stuðning við yfirvöldin með því að ýta undir þá tilfinningu að setið sé um Rússland. Hann telur enga þörf á frekari hvatningu til almennings í þágu stjórnvalda, forystumenn þjóðarinnar njóti enn mikils stuðnings.

Á það er hins vegar bent að með eyðingu matvælanna sé ýtt á ýmsa mjög heita bletti og þeir séu ekki síst meðal þess hóps íbúa landsins sem standi fastast að baki ríkisstjórninni en finni nú þegar fyrir áhrifum hækkunar matvælaverðs.

Blaðið segir að niðurstaðan verði líklega sú að vegna matvælaeyðingarinnar myndist önnur staða en yfirvöldin höfðu auga á þegar gripið var til hennar.

Viðurkennt er að réttmætt sé að eyða matvælum enda sé það oft gert í Rússlandi og um heim allan. Þetta á einkum við um matvæli sem eru orðin gömul eða fullnægja ekki heilbrigðiskröfum.

Þá vilja yfirvöld eyða matvælum sem eru af óljósum uppruna og hafa þess vegna ekki nauðsynlega gæðastimpla.

Í Rússlandi hefur verið bent á mörg brot á innflutningsbanninu á matvælum. Í The Moscow Times er vitnað í Arkadíj Dvorkovitsj vara-forsætisráðherra sem sagði að innflutningbannið hefði verið brotið 700 til 800 sinnum svo sannað væri. Opinbera matvælaeyðingin á að minna útflytjendur, birgja og tollverði á alvarleika þess að brjóta gegn innflutningsbanninu.

Þegar markmiðið er að kveikja ákveðnar tilfinningar meðal almennings til stuðnings yfirvöldunum er erfitt að draga saman seglin eftir af stað er farið. Að gagnrýna Rússlandsforseta opinberlega er illa séð.

Þeir sem vinna að framkvæmd tilskipunarinnar um eyðingu matvæla vilja sýna forsetanum fullan stuðning. Fyrirtæki sem hafa hagsmuna að gæta vilja alls ekki láta sitt eftir liggja og fylgja straumnum. Forstjóri fyrirtækisins Turmalín sem framleiðir brennsluofna hefur til dæmis tilkynnt að hann muni útvega 20 færanlega ofna til nota við landamærastöðvar og þá er aðeins eftir að setja þá upp við 400 stöðvar. Þannig magnast stríðið gegn matvælum stig af stigi.

Nú er hins vegar svo komið að hefðbundin herferð til stuðnings ríkisstjórninni og ákvörðun hennar hefur þegar leitt til ástands sem margir telja augljóslega fráleitt: opinbert stríð er háð gegn matvælum á sama tíma og efnagskreppa virðist á næsta leiti.

Forsetaráðið um siðmenntað samfélag og mannréttindi og prestar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hafa risið til andmæla gegn eyðingu matvælanna og á vefsíðunni Change.org geta menn skrifað undir skjal þar sem þess er krafist að tilskipunin um eyðingu verði afturkölluð og hinn bannfærði varningur verði gefið þurfandi. Fyrsta daginn skrifuðu 100.000 undir skjalið og jafnmargir næsta dag.

The Moscow Times segir að Anatolíj Aksakov, formaður efnahagsnefndar neðri deildar rússneska þingsins, Dúmunnar, og Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, hafi lofað að upplýsa Pútín um bænarskjalið á Change.org.

Það hefur ýtt undir reiði almennings að í sjónvarpi ríkisins hafa verið sýndar myndir sem eiga að sanna réttmæti þess að mylja og brenna hinn erlenda mat.

Rosselkhoznadzor hafnar kröfum þeirra sem vilja að matvælin verði nýtt í þágu fátækra og þurfandi. Það er beinlínis hættulegt að leggja þau sér til munns segir stofnunin.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …