fbpx
Home / Fréttir / Le Monde varar við „dauðagildru alþjóðlegs viðskiptastríðs“

Le Monde varar við „dauðagildru alþjóðlegs viðskiptastríðs“

597ba546fc7e93d2468b4567

Innan Evrópusambandsins er leitað leiða til að svara ákvörðuninni sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hratt í framkvæmd fimmtudaginn 31. maí þegar hann kynnti að framvegis yrðu tollar lagðir á ál og stál sem flutt væri frá Evrópulöndum til Bandaríkjanna. Forsetinn hótaði fyrir tveimur mánuðum að tollarnir kæmu til sögunnar nema Evrópuríkin gerðu ráðstafanir til að draga úr halla Bandaríkjanna í tvíhliða viðskiptunum við ESB-ríkin.

Innan Evrópu sögðust menn neita að „semja með byssuhlaupið við gagnaugað“ og nú hefur Bandaríkjastjórn stigið næsta skref og hótað viðskiptastríði sem kann að leiða til samdráttar í heimsbúskapnum. Álagning tollanna bitnar ekki aðeins á Evrópuríkjum heldur einnig Kanada og Mexíkó, næstu nágrönnum Bandaríkjanna.

Ákvörðun Trumps sætir gagnrýni utan og innan Bandaríkjanna og er sögð bæði „gagnslaus og ábyrgðarlaus“ í leiðara franska blaðsins Le Monde laugardaginn 2. júní.

Blaðið segir ákvörðunina ábyrgðarlausa vegna þess að hún grafi undan reglum um alþjóðaviðskipti sem séu einkum mótaðar að frumkvæði Bandaríkjamanna. Trump fordæmi gagnsleysi Alþjóðaviðskiptastofnunaarinnar (WTO) og hafi reglur hennar að engu. Þá stuðli verndartollarnir að því að auka enn á vandræðin í samskiptum bandalagsríkjanna við Atlantshaf. Þetta bætist við vandræðin vegna ágreinings um afstöðuna til samningsins um kjarnorkuvopn Írana og flutning sendiráðs Bandaríkjanna til Jerúsalem.

Blaðið segir að ákvörðun Trumps skili ekki þeim árangri sem að sé stefnt vegna tveggja meginþátta. Í fyrsta lagi vegna þess að viðskiptahalli Bandaríkjanna lagist alls ekki með tollahindrunum. Bandaríkjamenn lifi einfaldlega um efni fram og spari ekki nóg. Sé hugað að stálinu séu refsitollarnir lagðir á rangan aðila, það séu Kínverjar sem stjórni undirboðum á alþjóðlega stálmarkaðnum og grafi undan fjölda starfa á Vesturlöndum. Þá sé broslegt að halda því fram að innflutningur á stáli og áli frá Evrópu ógni öryggi Bandaríkjanna.

Það sé þó einn kostur við þessa ákvörðun Bandaríkjamanna: hún kalli Evrópumenn til ábyrgðar. Nú reyni á hvort ESB-ríkin geti staðið saman. Skammtímahagsmunir þjóðanna falli ekki að öllu leyti saman. Standi Frakkar fast á sínu kunni Þjóðverjar að móta sveigjanlegri stefnu til að gæta gífurlegs forskots síns í viðskiptum.

Le Monde segir að Donald Trump viti vel að brynvörn Evrópu sé brothætt og hann hiki ekki við að færa sér það í nyt. Þar megi nefna hótun hans um leggja sérstakan toll á þýska bíla.

Í lok leiðarans hvetur Le Monde Evrópuríkin til að átta sig á eigin styrkleika, þau séu helsta viðskiptasvæði heimsins. ESB hafi tæki í sínum höndum sem geti stuðlað að ábyrgum frjálsum viðskiptum og jafnvægi gagnvart öðrum heimshlutum. Á þann veg megi sýna Bandaríkjamönnum að einhuga Evrópumenn kunni að verjast.

Í þessu ljósi sé jákvætt að í Evrópu búi ESB sig undir andsvar. Galdurinn felist í að finna jafnvægi milli andsvarsins og virðingar fyrir alþjóðareglum til að forðast „dauðagildru alþjóðlegs viðskiptastríðs“.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …