fbpx
Home / Fréttir / Lars Løkke Rasmussen segir Trump engu breyta um traust sitt í garð Bandaríkjanna

Lars Løkke Rasmussen segir Trump engu breyta um traust sitt í garð Bandaríkjanna

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, sagði í fyrirspurnatíma í danska þinginu þriðjudaginn 17. janúar að embættistaka Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna föstudaginn 20. janúar breytti engu um að Danir mundu áfram sækja yfir Atlantshafið til að njóta geópólitísks trausts og öryggis.

„Að mínu mati verða Bandaríkin áfram traustasta bandalagsríki Evrópu og þar með einnig Danmerkur,“ sagði forsætisráðherrann. Nýr stíll og annars konar málflutningur Bandaríkjaforseta breytti ekki inntaki þess sem sagt væri.

Donald Trump (70 ára) verður 45. forseti Bandaríkjanna föstudaginn 20. janúar. Orð hans hafa meðal annars verið túlkuð á þann veg að hann hallist að einangrunarhyggju og hafi horn í síðu NATO.

Í júlí sagði hann í löngu viðtali við The New York Times að það réðist af því hvort viðkomandi aðildarríki NATO hefði staðið við fjárhagsskuldbindingar sínar hvort Bandaríkjamenn leggðu ríkinu lið yrði á það ráðist.

„Ef þau [ríkin] uppfylla skyldur sínar gagnvart okkur er svarið já,“ sagði Trump og gagnrýndi þau NATO-ríki sem ekki hefðu varið að lágmarki 2% af vergri landframleiðslu (VLF) til varnarmála.

Fyrir utan Bandaríkjamenn fullnægja aðeins Grikkir, Pólverjar, Bretar og Eistlendingar þessu skilyrði. Danir verja um 1,2% af VLF til varnarmála. Í Jyllands Posten segir fimmtudaginn 19. janúar að það kosti hvern einasta Dana 3.000 d. kr.  (um 50.000 ísl. kr.)  á ári að verða við kröfu Trumps.

Danski forsætisráðherrann hefur eins og aðrir fylgst með skilaboðunum frá Trump á Twitter. Hann sagðist vilja bíða með að taka af skarið um hvað fyrir Trump vekti þar til eftir að hann yrði forseti.

„Að lokum ber að dæma hlutina eftir innihaldi þeirra. Forsetinn hefur ekki enn verið settur í embætti og þingið er að ræða við verðandi embættismenn hans og þar birtast aðrir fletir á myndinni en sjá má með því að skoða aðeins Twitter,“ sagði danski forsætisráðherrann í þinginu og vísaði til þess að öldungardeilarþingmenn spyrja tilnefnda ráðherra Trumps um skoðanir þeirra áður en þeir taka afstöðu til hvort eigi að skipa þá.

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …