fbpx
Home / Fréttir / Landamæravarsla hert í Makedóníu – þúsundir strandaglópa í Grikklandi

Landamæravarsla hert í Makedóníu – þúsundir strandaglópa í Grikklandi

Landamæravarsla Dana.
Landamæravarsla Dana.

Þúsundir flótta- og farandfólks eru nú strandaglópar í Grikklandi eftir að lndamærum Makedóníu var að mestu lokað mánudaginn 22. febrúar. Um helgina ákvað stjórn Makedóníu að loka landamærunum fyrir Afgönum og herða reglur um ferðir Sýrlendinga og Íraka. Við þetta safnaðist fólk saman í Grikklandi og þriðjudaginn 23. febrúar hóf gríska lögreglan að fjarlægja það.

Samhliða lögregluaðgerðunum fór gríska stjórnin þess á leit við þá makedónísku að hún slakaði á landamæravörslunni.

Ríkisstjórn Slóveníu fól hins vegar hernum að hefja afskipti af för aðkomumanna frá Króatíu til landsins. Króatía er ekki enn aðili að Schengen-samstarfinu þrátt fyrir aðildina að ESB.

Framkvæmdastjórn ESB hét Grikkjum mánudaginn 22. febrúar aukinni aðstoð í glímunni við vandamál sem skapast vegna fjölgunar aðkomufólksins. Áform eru um að reisa búðir fyrir fólkið á leið þess um vesturhluta Balkanskaga, þar á meðal fyrir 50.000 manns í Grikklandi.

Yannis Mouzalas, útlendingamálaráðherra Grikklands, gagnrýnir Austurríkismenn, Tékka, Pólverja, Ungverja og Slóvaka harðlega fyrir að standa gegn komu flóttafólks til landa sinna eða setja þröng skilyrði fyrir henni.

Fyrirhugaðir eru fundir á vettvangi ESB í vikunni til að ræða leiðir til að létta undir með ríkjunum á Balkanskaga. Enn eru bundnar vonir við að Tyrkir leggi sitt af mörkum til að stöðva straum fólks til grisku eyjanna undan strönd Tyrklands.

Embættismenn ESB segja að frá áramótum hafi 90.000 manns komist frá Tyrklandi til Grikklands sem sýni að ekki hafi tekist að skapa nægilegar hindranir í Tyrklandi.

Heimild: Euobserver

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …