fbpx
Home / Fréttir / Kínversku fyrirtækin Huawei og ZTE útilokuð frá 5G í Svíþjóð

Kínversku fyrirtækin Huawei og ZTE útilokuð frá 5G í Svíþjóð

ok-huawei

Bannað verður að nota farbúnað frá kínverska fyrirtækinu Huawei í sænska 5G-farkerfinu að kröfu öryggislögreglunnar, Säpo, og sænska hersins. Þá er kínverska fyrirtækið ZTE einnig útilokað frá þátttöku í 5G-farkerfinu í Svíþjóð.

Í frétt sænska ríkisútvarpsins, SVT, um þetta þriðjudaginn 20. október er haft eftir sænskum farsímafyrirtækjum að það komi í ljós hvaða áhrif þetta hafi á afstöðu kínverskra stjórnvalda til viðskipta við Svíþjóð og Ericsson-fyrirtækið.

Í Svíþjóð hafði að minnsta kosti eitt farfyrirtækjanna áform um að nota aðeins Huawei-búnað við 5G-væðingu sína að sögn SVT. Nú hafi hins vegar Säpo og yfirstjórn hersins stöðvað þau áform. Er þar stuðst við ný lög sem tóku gildi í Svíþjóð í ársbyrjun.

Þegar frumvarp að lögunum var lagt fram sagði Anders Ygeman, ráðherra starfrænna mála, við SVT að þar væri að finna ákvæði sem heimiluðu að banna viðskipti við birgja sem kynnu að ógna öryggi Svíþjóðar.

Í lögunum er sænsku Póst- og fjarskiptastofnuninni (PST) gert skyld að ráðfæra sig við Säpo og yfirstjórn hersins um hvaða skilyrði skuli sett við gerð farkerfa.

Nú hefur PTS tekið ákvörðun þar sem segir að ekki verði um endurnýjun að ræða með búnaði frá Huawei eða ZTE.

Að sögn SVT er þetta algjört bann við því að kínversku fyrirtækin afhendi búnað í sænsk farkerfi.

Í þessu felst að sögn SVT að Huwei kemur ekki heldur lengur að sænska 4G-farkerfinu, annars yrði að hafa tvöfalt kerfi annars vegar fyrir 4G og hins vegar 5G. Þýði þetta í raun að kínverskur búnaður hverfi fljótt úr sænska farkerfinu. Formlega hafi sænsku fyrirtækin umþóttunartíma til 2025 en kerfin séu í stöðugri uppfærslu og því verði strax lokað á viðskiptin við Kínverja.

Litið er á Huawei, Nokia og Ericsson sem þrjá stærstu framleiðendur vegna 5G-væðingarinnar í Evrópu. SVT bendir á að nú keppi aðeins Nokia og Ericsson í Svíþjóð sem kunni að leiða til umræðna um að samkeppni sé ekki næg.

PST hefur þegar veitt fjórum fyrirtækjum heimild til þátttöku í fyrsta uppboði á rásum: Símafyrirtækinu 3 (Hi3G), Telenor (Net4Mobility), Telia og Teracom.

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …