fbpx
Home / Fréttir / Kínverjar svara Bandaríkjamönnum fullum hálsi vegna Suður-Kínahafs

Kínverjar svara Bandaríkjamönnum fullum hálsi vegna Suður-Kínahafs

Bandaríski flotinn birti þessa mynd og sýnir hún kínversk skip við dælingu og landfyllingu á Spratly-eyjum.
Bandaríski flotinn birti þessa mynd og sýnir hún kínversk skip við dælingu og landfyllingu á Spratly-eyjum.

Kínverjar hafa harðlega mótmælt gagnrýni Bandaríkjamanna á kröfur þeirra um yfirráð á Suður-Kínahafi. Kínverski flotaforinginn, Sun Jianguo, sagði sunnudaginn 31. maí á öryggisráðstefnu í Singapúr að landakröfur, landfyllingar og framkvæmdir Kínverja á kóraleyjum í hafinu, Spratly-eyjum, væru „réttlátar, lögmætar og skynsamlegar“ og þær væru „í alþjóðaþágu“.

Um er að ræða árlega ráðstefnu sem haldin er í Singapúr undir heitinu Shangri-La Dialogue á vegum Alþjóðahermálastofnunarinnar í London (IISS).

Flotaforinginn sem er vara-herráðsforingi í kínverska alþýðuhernum fullyrti að ekki væri um „neinar breytingar á kröfum Kínverja á Suður-Kínahafi að ræða“. Ekki væri heldur um að ræða „breytingar á afstöðu Kínverja um nauðsyn friðsamlegrar lausnar á óleystum ágreiningsmálum með viðræðum og samráði“.

Að lokinni ræðu flotaforingjans beindu fjölmargir áheyrenda, herforingjar, stjórnarerindrekar, fræðimenn og blaðamenn, til hans spurningum sem einkenndust af efasemdum um einlægni kínverskra yfirvalda að baki slíkum fullyrðingum. Steve Herman, frá Voice of America (VOA), sem sat ráðstefnuna sagði að hinn háttsetti kínverski herforingi hefði haldið sig við textann sinn og ekki gefið neinar frekari skýringar.

Bonnie Glaser, Asíufræðingur við Center for Strategic and International Studies (CSIS) í Washington, sagði við fréttamanna VOA að framkoma flotaforingjans sýndi skeytingarleysi í garð fulltrúa fjölda þjóða sem hefðu lýst áhyggjum sinum. Að Sun hefði neitað að gefa frekari skýringar ýtti aðeins undir þá skoðun að fyrir Kínverjum vekti að vígbúast á hinum umdeildu eyjum þar sem þeir vinna nú að framkvæmdum.

Eins og sagt hefur verið frá hér á síðunni sagi Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á þessari sömu ráðstefnu laugardaginn 30. maí að framganga Kínverja væri „á skjön“ við alþjóðaviðmið um landfyllingar og óljóst væri „hve miklu lengra“ Kínverjar ætluðu að ganga. Aðgerðir þeirra ykju hættuna á „rangmati og átökum“.

Carter minnti á að á aðeins 18 mánuðum hefðu Kínverjar slegið eign sinni á um 800 hektara. Fleiri ríki gerðu tilkall til eyja á þessum slóðum og samanlagt væru kröfur þeirra um landsvæði minni en Kínverjar einir hefðu eignað sér.

Bandaríski varnarmálaráðherrann tók af öll tvímæli um að Bandaríkjamenn mundu ekki viðurkenna tilraunir Kínverja til að tryggja sér 22 km landhelgi umhverfis umdeildu eyjarnar, rif og grynningar.

„Öllum ætti að vera ljóst að með því að breyta neðansjávar kletti í flugvöll öðlast ríki ekki fullveldisrétt eða heimild til að takmarka alþjóðaflug og siglingafrelsi,“ sagði Carter.

Snemma í maí 2015 skipaði kínverski herinn eftirlitsflugvél frá bandaríska flotanum að halda sig utan lofthelgi Spratly-eyja en flugmenn vélarinnar höfðu fyrirmælin að engu.

Gen Nakatani, varnarmálaráðherra Japans, sat ráðstefnuna í Singapúr. Hann hvatti Kínverja til að sýna „ábyrgð“ við beitingu valds og ekki standa gegn setningu „umgengisreglna“ á Suður-Kínahafi. Japanir deila við Kínverja um markalínur á Austur-Kínahafi.

Bandaríski flotaforinginn Harry Harris, nýskipaður yfirmaður bandaríska Kyrrhafsflotans, flutti ræðu á ráðstefnunni. Hann hafði áður reitt Kínverja til reiði með því að kalla miklar landfyllingar þeirra „Hinn mikli sandmúr“ og vísa þannig til hins forna Kínamúrs sem reistur var til að verja kínverska keisaradæmið.

„Ég tel mig ekki hafa gengið of langt,“ sagði Harris þegar hann svaraði spurningu Kínverja um hvers vegna hann hefði sagt þetta.

Steve Herman segir að þeir sem setið hafa þessa ráðstefnu áður telji að þar hafi orðaskipti oft verið harðar en að þessu sinni þótt margir hafi nú verið ómyrkir í máli.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …