Home / Fréttir / Kim Jong-un, einræðisherra í N-Kóreu, tárfellir

Kim Jong-un, einræðisherra í N-Kóreu, tárfellir

nintchdbpict000613492278

Kim Jong-un, einræðisherra í N-Kóreu, felldi tár þegar hann brá út af vana sínum og baðst afsökunar á að hafa brugðist þjóð sinni á tímum erfiðleika.

Þegar hann flutti ræðu á mikilli hersýningu laugardaginn 10. október til að minnast 75 ára valdatíma Verkamannaflokks N-Kóreu tók hann af sér gleraugun og þurrkaði tár – fréttaskýrendur segja þetta sýna vaxandi þrýsting á stjórn hans.

„Þjóð okkar hefur sýnt mér traust sem nær til himna og að hafsbotni en mér hefur mistekist að standa ávallt undir því á viðunandi hátt,“ sagði hann ef marka má þýðingu á ræðu hans í Korea Times. „Mig tekur það mjög sárt.“

Kim nefndi afa sinn og föður til sögunnar – tvo fyrrverandi einræðisherra N-Kóreu – og sagði: „Þótt á mér hvíli sú þunga ábyrgð að stjórna landinu í sama anda og félagarnir miklu Kim Il-sung og Kim Jong-il, þökk sé trausti fólksins, hafa kraftar mínir og einlægni ekki dugað til að losa þjóð okkar undan erfiði daglegs lífs.“

Á hersýningunni í höfuðborginni, Pyongyang, mátti sjá nýja risastóra langdræga eldflaug sem senda má heimsálfa á milli og annan herbúnað. Kim notaði hins vegar stóran hluta ræðu sinnar til að lýsa samúð sinni með eigin landsmönnum.

Í ræðunni heyrðust ógnvekjandi orð eins „alvarlegar áskoranir“, „óteljandi þjáningar“ og „fordæmalausar hörmungar“.

Landamærin gagnvart Kína lokuðust vegna COVID-19-faraldursins og þar með helsta viðskipta- og samgönguæð N-Kóreumanna. Opinberlega lætur stjórn Kims eins og ekki einn einasti íbúi landsins hafi veikst af kórónuveirunni.

Skoða einnig

Danskir bændur mótmæla minkaeyðingunni.

Danskir bændur mótmæla ríkisstjórn og minkadrápum

Danskir bændur efndu til mótmæla á hundruðum dráttarvéla í Árósum og Kaupmannahöfn laugardaginn 21. nóvember …