fbpx
Home / Fréttir / Jens Stoltenberg: NATO verður að bregðast við hervæðingu Rússa frá N-Íshafi til Miðjarðarhafs

Jens Stoltenberg: NATO verður að bregðast við hervæðingu Rússa frá N-Íshafi til Miðjarðarhafs

 

Bandarískir hermenn á NATO-æfingu í Eystrasaltsríki.
Bandarískir hermenn á NATO-æfingu í Eystrasaltsríki.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að Atlantshafsbandalagið verði að bregðast við aðgerðum Rússa til að auka hernaðarleg áhrif sín í Norður-Íshafi, á Eystrasalti og Miðjarðarhafi.

Í viðtali við þýska blaðið Bild Zeitung fimmtudaginn 16. júní segir Stoltenberg: „Rússar reyna að stækka áhrifasvæði sitt með hernaðarlegum aðferðum.“ NATO greini gífurlega hernaðaruppbyggingu við landamæri sín í Norður-Íshafi, á Eystrasalti og Miðjarðarhafi. Við þessu verði bandalagið að bregðast.

Miðvikudaginn 15. júní kynnti NATO ákvarðanir varnarmálaráðherra bandalagsríkjanna sem lagðar verða til staðfestingar fyrir leiðtogafund bandalagsins í Varsjá 8. og 9. júlí. Gert er ráð fyrir að fjögur herfylki undir merkjum bandalagsins verði send til austurhluta Evrópu. Segir Stoltenberg að með þeim sé á „hæfilegan hátt“ brugðist við „ögrandi aðgerðum Rússa“. „Við viljum að hugsanlegir árásaraðilar viti að við grípum til aðgerða þegar þeir ógna okkur,“ sagði Stoltenberg.

Eistar, Lettar, Litháar og Pólverjar hafa beðið um að herfylkin komi til landa sinna. Þjóðirnar telja öryggi sínu ógnað eftir að Rússar innlimuðu Krím vorið 2014. Um 1.000 hermenn á vegum NATO munu hafa fasta viðveru í hverju landi fyrir sig.

Samhliða því sem varnarmálaráðherrarnir ákváðu þessa nýju skipan á herafla NATO samþykktu þeir að heræfingum yrði fjölgað meðal annars hjá hraðliði NATO sem kom til sögunnar í fyrra. Þetta lið verður unnt að senda með 48 stunda fyrirvara til hættusvæða. Til að búa í haginn fyrir það hefur þegar verið hafist handa við gerð herstjórnarstöðva NATO í austurhluta Evrópu.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …