fbpx
Home / Fréttir / Hvíta-Rússland: Nóbelshöfundur óttast blóðbað nema Lukasjenko hverfi

Hvíta-Rússland: Nóbelshöfundur óttast blóðbað nema Lukasjenko hverfi

Svetlana Alexievitsj, rithöfundur í Hvíta-Rússlandi sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015.
Svetlana Alexievitsj, rithöfundur í Hvíta-Rússlandi sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015.

Svetlana Alexievitsj, rithöfundur í Hvíta-Rússlandi sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015, gagnrýnir hörku lögreglunnar gegn mótmælendum í landinu harðlega og segir að stjórnvöld hafi „lýst stríði á hendur þjóð sinni“, Alexander Lukasjenko forseti eigi að segja af sér vilji hann hindra blóðbað.

Svetlana Alexievitsj er í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, en lét þess ummæli falla í símtali við fréttastofuna RFE/RL miðvikudaginn 12. ágúst. Ekkert lát er á mótmælum í Hvíta-Rússlandi eftir forsetakosningarnar sunnudaginn 9. ágúst. Andstæðingar Lukasjenkos telja að brögð hafi verið í tafli og opinber úrslit sem sýna 80% kjósenda styðja hann séu reist á kosningasvindli.

„Farðu áður en það er of seint, áður en þú hefur ýtt þjóðinni fram af brúninni í hyldýpi borgarastyrjaldar,“ sagði 72 ára gamla skáldkonan og beindi orðum sínum til Lukasjenkos. „Enginn vill blóð. Þú einn vilt völd. Og það er þrá þín eftir völdum sem krefst blóðs.“

Í símtalinu segist Svetlana Alexievitsj hafa orðið fyrir áfalli vegna grimmdarinnar sem lögreglan í Hvíta-Rússlandi sýni friðsömum mótmælendum – þar á meðal hópum kvenna í Minsk og í öðrum borgum.

Hún segir þjóðina „algjörlega sannfærða“ um að Lukasjenko hafi tapað kosningunni fyrir helsta keppinauti sínum Svetlönu Tsikhanouskaju sem neyddist til að yfirgefa Hvíta-Rússland og er nú í Litháen eftir að hún mótmælti opinberum úrslitum kosninganna formlega á fundi með yfirkjörstjórn landsins.

„Nú sjást þeir hvergi sem játast Lukasjenko,“ segir Svetlana Alexievitsj. „Hvernig getur nokkur treyst manninum eftir það sem gerst hefur á götunum?“

Hún telur ekki ólíklegt að rússnesk óeirðalögregla – OMON-öryggissveitir –

hafi komið til Minsk til að aðstoða liðsmenn Lukasjenkos við að dreifa mannfjöldanum með ofurvaldi. Hún segir grimmd lögreglunnar næstum ómannlega og erfitt sé að trúa því að liðsmenn frá Hvíta-Rússlandi beiti slíkri hörku. Þeir gætu varla lamið mæður sínar og systur svo miskunnarlaust. „Þetta er ekki raunverulegt. Í litlum þorpum þar sem allir þekkjast neita OMON-liðar [frá Hvíta-Rússlandi] að berja fólk. En hér [í Minsk] gerast nú óraunverulegir atburðir.“

Svetlana Alexievitsj hrósar Tsikhanouskaju sem ekki hafði áður stigið fram á pólitískan vettvang heldur sinnt húsmóðurstörfum, hún hafi áorkað miklu og sé „tákn fyrir breytingaþorstann, þorsta eftir nýju lífi, þorsta eftir heiðarleika“.

Alexievitsj segist þakklát Tsikhanouskaju og félögum hennar fyrir „að gæta virðingar okkar“. Undanfarnar vikur hafi henni þótt innilega vænt um þetta fólk. „Þetta er allt annars konar fólk og það er algjörlega nýtt afl í þessu fólki,“ segir hún.

Svetlana Alexievitsj (72 ára) fékk Nóbelsverðlaunin fyrir lýsingar sínar, reistar á samtölum, á stríðshörmungum og lífi á sovéska kúgunartímanum. Þá hefur hún lýst getuleysi Sovétstjórnarinnar þegar kjarnorkuslysið varð í Tsjernobíl.

 

 

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …