fbpx
Home / Fréttir / Hryðjuverkin í París – leit beinist að vopnasölum í Belgíu

Hryðjuverkin í París – leit beinist að vopnasölum í Belgíu

Hrinn hefur verið kallaður til öryggisgæslu í París
Hrinn hefur verið kallaður til öryggisgæslu í París

Franskir embættismenn hafa nafngreint fyrsta byssumanninn af þeim sem tóku þátt í árásinni í París. Sagt er að unnt hafi verið að greina hann vegna hluta af fingri sem fannst í Bataclan-tónleikahúsinu. Þá segir lögreglan að hún hafi fundið bifreið sem notuð var við árásina. Athygli lögreglu beinist að tengslum ódæðismanna við vopnasala í Belgíu.

Nicolas Sarkozy, leiðtogi Lýðveldissinna, stærsta franska stjórnarandstöðuflokksins, hitti François Hollande Frakklandsforseta að morgni sunnudags 15. nóvember á 90 mínútna fundi í forsetahöllinni. Að loknum fundinum tók Sarkozy undir með Hollande um að Frakkar ættu í stríði við Daesh (Ríki íslams). Þar með væri óhjákvæmilegt að grípa til ofur-róttækra gagnaðgerða.

Þriggja daga þjóðarsorg er í Frakklandi en stjórnmálaflokkarnir búa sig undir héraðsráðakosningar í desember. Talið er að lokadagar kosningabaráttunnar muni bera svipmót hryðjuverkaárásarinnar. Sarkozy sagði að það yrði að gjörbreyta öryggisstefnu Frakklands og einnig útlendingalögum.

Síðdegis sunnudaginn 15. nóvember voru sjö menn handteknir í Belgíu og er talið að þeir tengist árásinni í París. Sérfræðingar segja að í Belgíu sé að finna miðstöð ólöglegra vopna sem smyglað hefur verið frá fyrrverandi Júgóslavíu.

Hinn nafngreindi byssumaður var 29 ára og hét Ismael M. Franski saksóknarinn sem stjórnar rannsókninni sagði hann aldrei hafa verið tengdan samtökum hryðjuverka. Hann var í hópi þeirra sem réðust inn í Bataclan-tónleikahúsið og drápu 89 manns á tónleikum hljómsveitarinnar Eagles of Death Metal. Hann var annar byssumannanna sem sprengdu sig í loft upp þegar lögregla réðst til atlögu við þá. Ismael hafði verið sakfelldur átta sinnum fyrir smáafbrot en aldrei setið í fangelsi. Rannsakendur kanna hvort hann hafi farið til Sýrlands í fyrra.

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …