fbpx
Home / Fréttir / Hollenska þjóðaratkvæðagreiðslan og vaxandi einangrun Úkraínu

Hollenska þjóðaratkvæðagreiðslan og vaxandi einangrun Úkraínu

Juri Lutsenko, þingmaður frá Úkraínu.
Juri Lutsenko, þingmaður frá Úkraínu.

Þingflokksformaður stærsta flokksins á þingi Úkraínu hvetur hollenska kjósendur til að sýna „merki um samstöðu“ með hermönnum Úkraínu og segja já í þjóðaratkvæðagreiðslunni um samstarfssamning ESB og Úkraínu sem verður í Hollandi 6. apríl.

„Hermenn okkar berjast ekki aðeins fyrir Úkraínu, þeir berjast í þágu þess skipulags alþjóðamála sem Pútín [Rússlandsforseti] vill feigt,“ sagði Júrí Lutsenko úr flokki stuðningsmanna Petros Porosjenkós Úkraínuforseta í Brussel mánudaginn 29. febrúar.

„Við munum verða og erum nú tilbúnir að skipa framvarðarsveit í þessari baráttu. Við viljum aðeins sá merki um samstöðu, að þið sýnið okkur stuðning ykkar, stuðning við þá hermenn og foringja sem hafa fallið á þessari víglínu, þeir stóðu þar ekki aðeins til að verja Úkraínu heldur Evrópu, frelsi hennar og gildi,“ sagði Lutsenko.

Ræðu sína flutti hann með aðstoð túlks á blaðamannafundi í ESB-þinginu. Við hlið hans voru sex samþingmenn hans frá Úkraínu.

Oleh Liashko þingmaður sagði við EUobserver að hann mundi fara frá Brussel til Hollands til að ræða við hollenska stjórnmálamenn um stuðning þeirra við málstað Úkraínu og samninginn við ESB.

Fyrir utan að snúast um samstarfs- og viðskiptasamning Úkraínu og ESB er litið á þjóðaratkvæðagreiðsluna sem tækifæri fyrir Hollendinga til að lýsa vanþóknun sinni á ESB.

Nigel Farage, ESB-þingmaður og leiðtogi UKIP, flokks breskra sjálfstæðissinna, tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði að fara til Hollands og leggja sitt af mörkum til kosningabaráttunnar. Hann tengdi saman hollensku atkvæðagreiðsluna og þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um aðild að ESB. Taldi hann að sigruðu andstæðingar samningsins við Úkraínu í Hollandi mundi það létta róður ESB-andstæðinga í Bretlandi.

Niðurstaða í hollensku atkvæðagreiðslunni bindur hvorki hendur þingmanna né ríkisstjórnar landsins. Meirihluti þingmanna og ríkisstjórnin styðja samninginn við Úkraínu.

John Vincour, dálkahöfundur The Wall Street Journal, segir þriðjudaginn 1. mars að í hverri skoðanakönnuninni eftir aðra komi fram að Hollendingar muni hafna samningnum við Úkraínumenn í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Táknrænt muni nei Hollendinga vega mjög þungt. Í því felist marvísleg fyrirlitning í garð ESB en ekki síður samþykki við að Vladimír Pútín fari sínu fram hernaðarlega og með því að heyja blendingsstríð (e. hybrid warfare), stunda áróður sem höfði til meirihluta kjósenda í einu af kjarnaríkjum ESB. Vincour segir:

„Þetta er eins og Hollendingar segi við sjálfa sig: „Ergjum hann ekki. Hann getur sett af stað bylgju flóttamanna til Evrópu á einni síðdegisstund með nýjum sprengjuárásum í Sýrlandi.“ Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur sagt að Rússar hagnist mest á nei-atkvæði og bent Hollendingum á að með því að hafna samstarfsamningnum við Úkraínumenn geti þeir „kallað á krísu í álfunni“.“

Vincour finnst Juncker kveða of afdráttarlaust að orði en segir að höfnun Hollendinga geti breyst í undiröldu í Þýskalandi þar sem innlimun Rússa á Krímskaga hafi verið sett á bás með stuldi ráðamanna í Mosku á tveimur héruðum í Georgíu árið 2008 – sá þjófnaður sé nú fallinn í gleymskunnar dá.

Telur Vincour raunar að margt bendi til þess að ráðamenn stærstu ríkja ESB vinni nú að því að milda ágreining við Rússa vegna Úkraínu og Krímskaga. Þó vari Philip Breedlove, hershöfðingi, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO og Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna, við því að sætta sig við stöðuna í Úkraínu sem new normal eins og sagt er á ensku eða eðlilegan hlut miðað við nýjar aðstæður.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur ekki farið að hvatningu þeirra sem vilja að Bandaríkjastjórn leggi ríkisstjórninni í Kænugarði til öflugri vopn, þar á meðal gegn skriðdrekaher Rússa. Vincour segir að Hollendingar geti að minnsta kosti bjargað eigin heiðri með því að sýna Úkraínumönnum skilning í vaxandi einangrun þeirra. Obama forseti hafi hins vegar framselt Þjóðverjum pólitískt forræði gagnvart Úkraínu og lengra verði varla gengið á þeirri braut samhliða því sem forsetinn neiti að leggja þessu vanbúna vinaríki nægilegt lið. Telur Vincour þetta enn eitt merkið um hve mikinn þátt stjórn Obama eigi í hinu geopólitíska upplausnarástandi meðal Vesturlanda.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …