Home / Fréttir / Hælisleitendum snarfækkar milli ára í Danmörku og Noregi

Hælisleitendum snarfækkar milli ára í Danmörku og Noregi

Við landamæri Danmerkur.
Við landamæri Danmerkur.

Tæplega 3.500 manns sóttu um hæli í Danmörku árið 2017, hælisleitendur hafa ekki verið færri í landinu síðan 2008.

Tölurnar fyrir árin 2015 og 2016 þegar talið er að flestir farand- og flóttamenn hafi streymt til landsins sýndu að annars vegar hefðu 14.792 manns og hins vegar 21.316 sótt um hæli í Danmörku.

Í árslok 2017 lá fyrir að ekki hefðu færri sótt um hæli í Noregi síðan árið 1995. Hælisleitendur í Noregi voru 3.500 árið 2017 en 30.000 árið 2015.

Norsk yfirvöld hafa lokað nokkrum heimilum fyrir hælisleitendur vegna fækkunar þeirra undanfarna 12 mánuði. Fækkaði íbúum í slíkum gistiheimilum úr 13.400 í 5.100 á árinu 2017.

Yfirmaður norsku útlendingastofnunarinnar telur ólíklegt að hælisleitendum fjölgi í ár, þeir verði um 3.000.

Inger Støjberg, innflytjendaráðherra Danmerkur, segir að hömlur í útlendingareglum sem komið hafa til sögunnar síðan 2015 hafi stuðlað að fækkun hælisleitenda. Frá árinu 2015 hafa 67 nýjar hamlandi reglur verið settar um útlendingamál í Danmörku.

„Ég er ekki í minnsta vafa um að vitneskja um stranga stefnu okkar í útlendingamálum hefur borist víða út fyrir landmæri okkar og það eru einmitt áhrifin sem ég vildi að yrðu,“ sagði Støjberg í fréttatilkynningu sem fylgdi tölum ráðuneytis hennar.

„Ég hef aldrei efast um að flóttamenn gera upp á milli Evrópulanda eftir félagslegri aðstoð sem þar er veitt og ríkisstjórnin hefur nú lokað dönsku gjafabúðinni,“ sagði ráðherra.

Alls sóttu 3.458 manns um hæli í Danmörku árið 2017. Af málum sem var lokið enduðu 35% á þann veg að hæli var veitt segir í síðasta yfirliti sem birt var í nóvember 2017.´

 

Skoða einnig

Morgan Johansson dómsmálaráðherra og Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar (t.v.).

Sænskir stjórnmálamenn ræða beitingu hervalds gegn glæpahópum.

Jafnaðarmaðurinn Stefan Løfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði miðvikudaginn 17. janúar að hann útilokaði ekki að beita …