Home / Fréttir / Greining: Rússar kynna nýjan skriðdreka

Greining: Rússar kynna nýjan skriðdreka

Armata T-14 skriðdrekinn (Source: Wikimedia / Vitaly V. Kuzmin)
Armata T-14 skriðdrekinn (Source: Wikimedia / Vitaly V. Kuzmin)

Rússar efndu til mikillar hátíðar laugardaginn 9. maí til að minnast þess að 70 ár voru liðin frá sigri þeirra í síðari heimsstyrjöldinni. Að þessu sinni fór hin árlega sigurhátíð  fram í skugga vaxandi spennu milli Rússa og þjóða Vesturlanda vegna ástandsins í Úkraínu og innlimunar Rússa á Krímskaga fyrir rúmu ári.

Vegna 70 ára afmælisins var hersýningin í Moskvu meiri en jafnan áður og ein hin stærsta í heimi á síðustu áratugum. Meðal þess sem þar mátti sjá og vakti hvað mesta athygli er nýr rússneskur skriðdreki, fyrsta nýsmíði Rússa í 25 ár. Eins og sjá má á myndunum sem birtast hér var öllu til tjaldað.

Skriðdrekinn nefnist T-14 Armata. Hann markar þáttaskil í gerð þungavopna og verður helsti vígdreki rússneska landhersins. Armata er ætlað að sinna fjölþættum verkefnum. Skriðdrekann má til dæmis nýta til liðsflutninga, til loftvarna og í þágu stórskotaliðs. Armata er með þriggja manna áhöfn með sjálfvirkum skotturni sem býður upp á aukna hreyfigetu á aðal byssu ásamt því að veita aukið öryggi fyrir áhöfn. Meginbyssan er 125 mm og getur hún skotið hefðbundnum kúlum ásamt stýriflaugum með 8 km. drægi. Rússneskur skriðdreki hefur aldrei fyrr verið búinn svo fullkomnu vopnakerfi. Ein mesta byltingin við Armata er hinn mikli sveigjanleiki sem felst í hönnun hans, gerir hún drekann í raun að fjölnota farartæki til hernaðar.

Meðal þeirra hergagna sem sýnd voru hinn 9. maí var brynvarinn liðsflutningavagn, T-15, sem hvílir á sama undirvagni og Armata-skriðdrekinn.

Greining:

Eftir að rússneski herinn réðst inn í Georgríu árið 2008 blasti við að hann var bæði stirður og óskilvirkur. Síðan hafa rússnesk stjórnvöld lagt höfuðkapp á að auka sveigjanleika heraflans og skjót viðbrögð. Smíði Armata-skriðdrekans er liður í þessu átaki. Óljóst er hvenær herstjórnin getur treyst á hann vegna þess hve herinn er stór og landsvæðið sem fellur undir hana. Þá bætir efnahagsvandi Rússa ekki úr skák. Er því spáð að langur tími líði þar til Armata-skriðdrekar verði komnir í útbreidda notkun.

Rússar búa hinsvegar að vopnaiðnaði sem var byggður upp með áratugum af háum fjárframlögum undir Sovétríkjunum og eru enn í þeirri stöðu að ríki eins og Kína og Indland leita fremur til Rússlands fyrir vopnakaup en að leggja í allan stofnkostnaðinn við að koma sér upp alhliða hátækni vopnaiðnaði. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur lagt áherslu á að vopnaiðnaður sé og verði einn af hornsteinum rússneska þjóðarbúskaparins. Í því ljósi kann hann að forgangsraða í þágu framleiðslu á Armata T-14 þótt annað sé látið sitja á hakanum. Sérfræðingar segja að við smíði skriðdrekans hafi verið nýtt hátækni sem slagi upp í hið besta á Vesturlöndum. Minnt er á að eitt sé að hanna, teikna og smíða vopnakerfi annað að það nýtist sem skyldi þegar á reynir. Verður fylgst náið með því hvort Armata T-15 muni sjást á Krímskaga eða í nágrenni landamæra Úkraínu.

 

Frekari upplýsingar

Þyngd: 45-55 tonn.

Áhöfn: 2-3.

Brynvörn: 44S-sv-Sh, sem er ný tegund af brynvörn sem t.a.m. á ekki að tapa eiginleikum sínum í miklum kulda

Vopnakerfi 1(mismunandi eftir útfærslum): 125mm 2A82 skriðdreka fallbyssa, 2S35: 152mm byssa.

Vopnakerfi 2 (mismunandi eftir útfærslum):30 mm fallbyssa and 12.7 vélbyssa.

Vél: A-85-3A dísel vél, 1.200-1.500 hestöfl, 8 gíra sjálfskipting.

Hámarkshraði: 65-75 km/klst (eftir búnaði).

Radar og felubúnaður: stefnt er að því að Armata nýti sambærilega tækni og er að finna í fimmtu kynslóðar orrustuvélinni Sukhoi T-50. Turninn á T-14 er síðan með kerfi sem skjóta fjölda reyksprengja sem trufla stýriflaugar.

 

T-15 Armata að ofan (Source: Andrey Kryuchenko)
T-15 Armata að ofan (Source: Andrey Kryuchenko)

 

 

Skoða einnig

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB.

Harðar deilur Donalds Tusks og pólsku ríkisstjórnarinnar

Pólska ríkisstjórnin hefur sakað Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, um að …