fbpx
Home / Fréttir / Gögn talin sýna vitneskju rússneskra hermanna um árásina á MH17 sumarið 2014

Gögn talin sýna vitneskju rússneskra hermanna um árásina á MH17 sumarið 2014

Rússneskir hermenn við Buk-skotflaugapall í Úkraínu.
Rússneskir hermenn við Buk-skotflaugapall í Úkraínu.

Hollenskir saksóknarar athuga nú réttmæti fullyrðinga hóps breskra blaðamanna sem kalla sig Bellingcat-hópinn um að 20 rússneskir hermenn hið minnsta hafi átt aðild að árásinni sem grandaða flugvél Malaysia Airlines, flugi MH17, yfir austurhluta Úkraínu sumarið 2014.

Eliot Higgins, stofnandi Bellingcat, sagði í samtali við NOS-sjónvarpsstöðina í Hollandi sunnudaginn 3. janúar að hópur sinn teldi að 20 hermenn í loftvarnasveit í Kursk hefði „líklega“ skotið flauginni eða vissi hver hefði gert það.

Heimildir hópsins eru meðal annars færslur hermannanna á samfélagsmiðlum, myndir á netinu og net-upplýsingar frá hernum um ferðir hermanna.

„Við höfum nöfn og myndir af hermönnunum í herflutningabílunum sem fluttu MH17 Buk-flaugina í júní, nöfn yfirmanna þeirra og yfirmanna yfirmannanna o.s.frv.,“ sagði Higgins við The Daily Telegraph í London.

Hann sagði að hópurinn mundi innan tíðar birta 123 bls. skýrslu sína um málið.

Bellingcat sérhæfir sig í skoðun á efni á samfélagsmiðlum og öðrum vefjum. Hópurinn hefur rannsakað örlög MH17 síðan þau voru ráðin.

Á árinu 2014 skýrði hópurinn frá því að Buk-skotpallur hefði sést 17. júlí á svæði undir stjórn aðskilnaðarsinna sem væru hollir Rússum. Þá var einnig sagt að pallurinn kæmi úr herflutningalest 53. loftvarnafylkis Rússlands – sem hefur aðsetur í Kursk en var sent til æfinga skammt frá landamærum Úkraínu.

Talsmaður hollensku saksóknaranna sem rannsaka hvort Rússar áttu hlut að skotflaugarárásinni sagði mánudaginn 4. janúar að þeir mundu grandskoða skýrsluna frá Bellingcat og hvort hana mætti nota við gerð ákæru í málinu.

Talið er líklegt að síðar á þessu ári birti hollenskir saksóknarar ákæru í málinu með nöfnum þeirra sem grunaðir eru vegna ódæðisins.

Þegar liggur fyrir niðurstaða hollenskrar rannsóknarnefndar sem staðfestir að flugvélinni hafi verið grandað af Buk loftvarnaflaug frá skotpalli á yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna.

Rússar segjast ekki hafa sent neina hermenn til Úkraínu og kenna stjórnvöldum í Kænugarði um að hafa grandað vélinni.

Ráðamenn í Donetsk alþýðulýðveldinu sem njóta stuðnings Rússa segjast aldrei hafa haft aðgang að Buk-skotflaug og hafna gögnum sem sýna að Buk-skotpallur var á svæðinu þegar flugvélinni var grandað.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …