fbpx
Home / Fréttir / Frontex víkur fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu

Frontex víkur fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu

 

Flótta- og farandfólk á hafi úti við eftirlitsbát.
Flótta- og farandfólk á hafi úti við eftirlitsbát.

ESB-þingið og ráðherraráð ESB urðu á mettíma sammála miðvikudaginn 22. maí um að styðja tillögu framkvæmdastjórnar ESB um Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu. Hún kemur í stað Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, og tekur að fullu  til starfa nú í sumar.

Nýja stofnunin starfa í anda Frontex en með aukið og skýrara umboð. Leiði greining og mat til þess að talin sé þörf á aukinni gæslu ytri landamæra Schengen-svæðisins á einhverjum stað getur nýja stofnunin gripið sinna ráða án þess að leita fyrst samþykkis viðkomandi ríkis.  Á hinn bóginn verða ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB að vera sammála um nauðsyn sérgreindra aðgerða á ytri landamærum Schengen-svæðisins.

Ákvörðunin um að gripið skuli til aðgerða af Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu felur í sér lýsingu á við hvaða vanda skuli tekist auk þess sem nauðsynlegt er að viðkomandi ríki vinni með stofnuninni. Stofnunin ákveður þá hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar til að framkvæma fyrirmæli framkvæmdastjórnarinnar og mun ganga til verks í viðkomandi landi.

Komið verður á fót varaliði landamæravarða frá aðildarlöndum stofnunarinnar sem grípa má til í skyndi ef þörf krefst. Þá mun stofnunin einnig ráða yfir sérhæfðum tækjabúnaði til landamæravörslu og móttöku aðkomufólks. Má nota hann í ólíkum löndum þar sem þörf er.

Til að fjalla um brottvísun aðkomufólks verður komið á fót Endursendingarskrifstofu á vegum stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir samræmingu á þessu sviði.

„Aðildarríki munu áfram halda uppi eftirliti og bera ábyrgð á landamærum sínum og bera áfram ábyrgð á daglegri stjórn ytri landamæra. Til þess kann hins vegar að koma að nauðsynlegt sé fyrir Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu að veita aðstoð og skilgreina og grípa til forvarnaraðgerða í stað þess að bregðast við of seint. Jafnvel þótt þess sé ekki óskað af aðildarríki,“ sagði embættismaður ESB.

Markmiðið er að snarlega verði tryggt að nýja stofnunin geti komið að því að stöðva straum fólks ólöglega yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins. Við svo búið verði unnt að hætta gæslu á innri landamærum svæðisins, það er milli einstakra aðildarlanda Schengen-samstarfsins.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …