fbpx
Home / Fréttir / Frontex eykur umsvif sín með auknu fé og samvinnu við Europol

Frontex eykur umsvif sín með auknu fé og samvinnu við Europol

Frontex

Frontex, Landamærastofnun Evrópu, fær 54% hærri fjárveitingu á árinu 2016 en í ár. Aukningin er liður í aðgerðum framkvæmdastjórnar ESB til að takast á við straum farand- og flóttamanna til Evrópu,

Fabrice Leggeri, forstjóri Frontex, lýsti vexti stofnunarinnar á fundi með nefnd lávarðadeildar breska þingsins í London miðvikudaginn 16. september. Starfsmönnum í höfuðstöðvum Frontex í Varsjá fjölgar úr 304 í 340 og alls fær hún 176 milljónir evra til ráðstöfunar á árinu 2016 miðað við 114 milljónir í ár.

Ísland á aðild að Frontex og stofnunin hefur um árabil leigt skip og flugvél af Landhelgisgæslu Íslands.

Á fundinum með lávörðunum sagði Leggeri að rýmri fjárráð gerðu Frontex kleift að auka samstarf sitt við aðrar evrópskar stofnanir eins og Europol, Evrópulögregluna. Markmiðið væri meðal annars að brjóta upp hringi smyglara og tryggja að tekin séu fingraför af þeim sem koma inn á Schengen-svæðið svo að unnt sé að fara eftir Dublin-reglugerðinni við afgreiðslu á umsóknum um hæli. Er unnið að því að þróa nýja tækni við töku fingrafara.

Markmiðið með auknu samstarfi Frontex við stofnanir á borð við Europol, European Asylum Support Office (EASO), skrifstofu til aðstoðar við afgreiðslu hælisumsóknma og European Union Naval Force Atalanta (EU Navfor), flotadeild undir merkjum ESB á Miðjarðhafi, er að auka eftirlit við ytri landamæri Schengen-svæðisins, tryggja skjóta meðferð hælismála og vísa þeim á brott sem hafa ekki málsbætur til hælisvistar.

Komið verður á fót svokölluðum „hotspots“ eða kjörnum til móttöku þeirra sem leita til Evrópu. Fyrsti kjarninn er kominn til sögunnar í tilraunaskyni í Cataniu á Sikiley. Þar vinna starfsmenn Frontex og Europol við hlið ítalskra landamæravarða við afgreiðslu mála og yfirheyrslur í því skyni að komast á snoðir um smyglhringi. Upplýsingar um þá eru meðal annars sendar til ESB-flotadeildarinnar.

Innanríkisráðherrar Schengen-ríkjanna koma saman til fundar þriðjudaginn 22. september til að ræða útfærslu stefnu ESB vegna farand- og flóttamanna. Leiðtogaráð ESB fjallar síðan um sama mál á aukafundi miðvikudaginn 23. september,

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …