fbpx
Home / Fréttir / Frakklandsforseti áréttar ásetninginn um að sigra Ríki íslams

Frakklandsforseti áréttar ásetninginn um að sigra Ríki íslams

 

François Hollande Frakklandsforseti flytur minningarræðu í Les Invalides
François Hollande Frakklandsforseti flytur minningarræðu í Les Invalides

Frakkar minntust með hátíðlegri athöfn í garði Les Invalides í París föstudaginn 27. nóvember hinna 130 sem féllu í árás hryðjuverkamanna í París föstudaginn 13. nóvember. Í minningarræðu áréttaði François Hollande Frakklandsforseti ásetning sinn um að vinna sigur á Ríki íslams í Sýrlandi.

Forsetinn var fimmtudaginn 26. nóvember í Moskvu þar sem hann hitti Vladuimír Pútín Rússlandsforseta og ræddi sameiginlegar leiðir til sigurs á hryðjuverkamönnunum í Sýrlandi. Forsetarnir urðu sammála um að skiptast á trúnaðarupplýsingum varðandi vígamenn Ríkis íslams og aðra öfgahópa í Sýrlandi til að tryggja sem mestan árangur í sprengjuárásum flugvéla ríkjanna.

„Við munum skiptast á upplýsingum um á hverja á að ráðast og á hverja ekki á að ráðast.,“ sagði Hollande á blaðamannafundi eftir viðræðurnar við Pútín. „Við urðum sammála um, og þetta er mikilvægt, að ráðast aðeins á hryðjuverkamenn og Daesh [Ríki íslams] en ráðast ekki á þá sem berjast gegn hryðjuverkamönnum.“

Pútin sagði Rússa fúsa til meiri samvinnu við Frakka og Bandaríkjamenn í leit að skotmörkum hjá Ríki íslams.

Fyrir fundinn með Pútín hafði Hollande rætt við forsætisráðherra Breta, forseta Bandaríkjanna, kanslara Þýskalands og forsætisráðherra Ítalíu um stríðsaðgerðir gegn Ríki íslams.

Öll samskipti af hálfu Vesturlanda við Vladimír Pútín eru erfið vegna yfirgangs Rússa í Úkraínu og stuðnings Pútíns við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Bandaríkjamenn segja að til þessa hafi 85% loftárása Rússa í Sýrlandi ekki verið á Ríki íslams. Pútín sagði á blaðamannafundinum í Moskvu 26. nóvember: „Her Assads er hinn eðlilegi herafli gegn hryðjuverkamönnum.“

David Cameron, forsætisráðherra Breta, býr sig undir að óska eftir heimild þingsins til loftárása á Ríki íslams í Sýrlandi. Hann segir Bretum skylt að leggja bandamönnum sínum, Frökkum, lið í stríði þeirra.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …