fbpx
Home / Fréttir / Frakkar óska eftir hernaðaraðstoð ESB-ríkja vegna aðgerða utan Frakklands

Frakkar óska eftir hernaðaraðstoð ESB-ríkja vegna aðgerða utan Frakklands

Federica Mogherini
Federica Mogherini

Ríkisstjórnir ESB-ríkjanna samþykktu þriðjudaginn 17. nóvember að veita Frökkum hernaðarlega aðstoð eftir hryðjuverkaárásina föstudaginn 13. nóvember. Er þetta í fyrsta sinn sem varnarmálaráðherrar ESB-ríkjanna standa að því að virkja ákvæði Lissabon-sáttmálans um sameiginlegar og gagnkvæmar varnir.

Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, sagði á blaðamannafundi af þessu tilefni:

„Frakkar hafa óskað eftir aðstoð Evrópuþjóða. Nú í dag hafa allar þjóðirnar sameinast um að segja já. Evrópusambandið lýsti yfir öflugum og ákveðnum stuðningi og að það mundi fúslega veita alla nauðsynlega hjálp og aðstoð.“

Í ræðu á fundi sameinaðs þings Frakklands mánudaginn 16. nóvember vísaði François Hollande Frakklandsforseti til 42.7 greinar sáttmála ESB. Þar sem segir að verði aðildarríki fyrir árás sé öðrum aðildarríkjum skylt að veita þá hjálp og aðstoð sem þau geta.

Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakka, sagði um mikilvæga pólitíska aðgerð að ræða sem mundi auðvelda öll tvíhliða samskipti við viðkomandi ríki og samhæfingu aðgerða.

Í lögum ESB er einnig að finna ákvæði um samstöðu vegna hryðjuverkaárásar í því skyni að „verja lýðræðislegar stofnanir og almenna borgara“ en Frakkar ákváðu að leita eftir aðstoð vegna hernaðaraðgerða sinna erlendis. Le Drian sagði að Frakkar væntu samvinnu vegna aðgerða sinna í Sýrlandi og Írak eða annarra aðgerða.

Frakkar halda nú úti 7.000 hermönnum erlendis meðal annars í Afríku. „Frakkar hafa ekki lengur burði til að gera allt einir,“ sagði Le Drian.

Ljóst er að sum ESB-ríki hafa fyrirvara varðandi óskir um að þau sendi herafla sinn til starfa erlendis hvað sem líður samþykki þeirra við ósk Frakka.

Federica Mogherini sagði að hvert ríki mundi leggja sinn skerf af mörkum í samræmi við eigin varnar- og utanríkisstefnu. Hér væri fyrst og síðast um pólitísk skilaboð að ræða. Þá yrði tekið mið af heildarstefnu ESB gagnvart arabaríkjum og alþjóðasamstarfi almennt.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …