fbpx
Home / Fréttir / Forsætisráðherra Rússlands segir nýtt skeið af köldu stríði hafið

Forsætisráðherra Rússlands segir nýtt skeið af köldu stríði hafið

Dmitríj Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.
Dmitríj Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.

Dmitríj Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði á öryggisráðstefnunni í München laugardaginn 13. febrúar að heimurinn hefði „runnið inn í nýtt skeið af köldu stríði“ vegna vaxandi ágreinings milli ráðamanna á Vesturlöndum og í Rússlandi vegna Sýrlands og Úkraínu.

„Það líður varla sá dagur að við séum ekki sakaðir um nýjar, hryllilegar hótanir annað hvort gegn NATO í heild, gegn Evrópu eða gegn Bandaríkjunum eða öðrum ríkjum,“ sagði forsætisráðherrann.

Eftir að hafa rætt viðfangsefni alþjóðamála, svæðisbundin átök, hryðjuverk og flóttamannavandann sagði hann óhjákvæmilegt að litið yrði á Rússa sem samstarfsaðila. Það hefði ekki skapast óbrúanlegt bil frá Moskvu til annarra höfuðborga.

„Við höfum ólíka afstöðu en skoðanamunurinn er ekki eins mikill og fyrir 40 árum þegar múr stóð í Evrópu,“ sagði ráðherrann og tíundaði að sameiginlegur árangur hefði nást í afvopnunarmálum, varðandi Íran og sjórán.

Rússneski forsætisráðherrann sakaði vestræna ráðamenn um útþenslustefnu gagnvart fyrirverandi leppríkjum Sovétríkjanna í Evrópu, með þessu hefðu þeir breikkað bilið gagnvart stjórn Rússlands.

„Evrópskir stjórnmálamenn sögðu að með því að koma á fót svonefndu vinabelti í útjaðri Evrópu, útjaðri ESB, yrði til öryggistrygging. Hver er svo niðurstaðan? Ekki vinabelti heldur útilokunar-belti,“ sagði hann.

Medvedev dró einnig í efa skynsemi þess að beita Rússa þvingunum vegna innlimunar Krímskaga og stuðnings þeirra við aðskilnaðarsinna holla Rússum í austurhluta Úkraínu. Hann sagði að þær sköðuðu báða aðila. Hvatti hann þess í stað til sameiginegs átaks allra ríkja til að berjast gegn því sem hann kallaði vaxandi efnahagsvanda í heiminum.

Fréttamaður þýsku fréttastofunnar DW bað Philip Breedlove, hershöfðingja, yfirmann Evrópuherstjórnar NATO, um álit á ræðu Medvedevs. Hann sagði viðbrögð NATO vera „til varnar“ og þar væri gætt „meðalhófs í umfangi og getu“.

„Enginn í NATO vill hverfa aftur til kalda stríðsins,“ fullyrti Breedlove. NATO gripi til sinna ráða þegar við blasti eftir tveggja áratuga tilraunir til samstarfs að viðkomandi þjóð hefði sýnt að hún vildi ekkert samstarf. Rússar hefðu auk þess sýnt að þeir hikuðu ekki við að beita valdi til að knýja fram breytingar á landamærum sem notið hefðu alþjóðlegrar viðurkenningar.

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …