fbpx
Home / Fréttir / Forsætisráðherra Frakka varar við hættu á efna eða lífrænni árás

Forsætisráðherra Frakka varar við hættu á efna eða lífrænni árás

Unnið að rannsókn í húsarústum í St. Denis í Frakklandi,
Unnið að rannsókn í húsarústum í St. Denis í Frakklandi,

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sagði í ræðu á franska þinginu fimmtudaginn 19. nóvember, að hugsanlega myndu hryðjuverkamenn beita efna eða lífrænum vopnum í Frakklandi.

Forsætisráðherrann sagði þetta þegar hann fylgdi úr hlaði frumvarpi ríkisstjórnarinnar þar sem henni er heimilað að lýsa yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu í stað 12 daga eins og nú er.

Ráðherrann sagði að hryðjuverkamenn réðust ekki á Frakkland vegna aðgerða Frakka í Írak eða Sýrlandi heldur vegna þess að Frakkland væri Frakkland. Hið nýja í stöðunni væri hvaða aðferðum væri beitt, hryðjuverkamenn beittu sér á annan hátt en áður. Óhugnanlegri hugmyndaauðgi þeirra sem stæðu að baki árásunum og gæfu fyrirmæli um þær væri ekki sett nein takmörk. Beitt væri árásar-rifflum, aflimunum, sjálfsmorðssprengjum og hnífum, stundum öllu þessu samtímis.

Valls hvatti til þess að innan Evrópu skiptust ríki á upplýsingum um flugfarþega í því skyni að auka almennt öryggi.

Belgíska lögreglan lét til skarar skríða á sex stöðum í Brussel og nágrenni fimmtudaginn 19. nóvember í leit að mönnum sem meðal annars eru grunaðir um aðild að hryðjuverkarárásinni í París föstudaginn 13. nóvember sem kostað hefur 129 manns lífið – enn eru fjölmargir sárir eftir árásina, sumir lífshættulega.

Hugsanlegt er að höfuðpaurinn í hryðjuverkaárásinni hafi fallið í átökum við lögreglu í Saint-Denis, úthverfi Parísar, að morgni miðvikudags 18. nóvember. Þá skaut lögregla 5.000 skotum í átökum við fólk sem hafði búið um sig í húsi við íbúðarhúsagötu. Kona í hópnum framdi sjálfsmorð með sprengju. Enn er leitað líkamsleifa í rústum hússins.

Evrópulögreglan, Europol, telur líklegt að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams láti til skarar skríða víðar í Evrópu. Rob Wainwright, yfirmaður Europol, sagði þetta á fundi með ESB-þingmönnum í Brussel sem ræddu neyðarfund innanríkisráðherra ESB-landanna sem verður í Brussel föstudaginn 20. nóvember.

 

Heimild: BBC

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …