fbpx
Home / Fréttir / Fjöldi bandarískra landgönguliða í Noregi tvöfaldast – færast nær Rússlandi

Fjöldi bandarískra landgönguliða í Noregi tvöfaldast – færast nær Rússlandi

 

Norksi herinn birti þessa mynd af bandarískum landgönguliðum á æfingu í Noregiþ
Norski herinn birti þessa mynd af bandarískum landgönguliðum á æfingu í Noregiþ

Frá því í fyrra hafa um 300 bandarískir landgönguliðar verið til sex mánaða dvalar í senn í Værnes, skammt frá Þrándheimi í Noregi. Þriðjudaginn 12. júní tilkynnti norska ríkisstjórnin að dvalartími landgönguliðanna í Værnes yrði lengdur í fimm ár, þeim yrði fjölgað í 700 og yrðu á tveimur stöðum. Æfingasvæði landgönguliðanna færist lengra til norðurs, nær rússnesku landamærunum.

„Sama á við um Noreg og flest önnur NATO-ríki að varnir landsins ráðast af framlagi bandamanna okkar í NATO,“ sagði Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, í yfirlýsingu á vefsíðu ráðuneytisins. Hann segir að þjálfun og samæfingar á friðartímum séu nauðsynlegar til að tryggja að þessi aðstoð komi að gagni á stríðstímum.

„Við verðum að tryggja að NATO-hermenn frá öðrum bandalagsríkjum fái að kynnast norskum aðstæðum og að hermenn Noregs og annarra bandalagsríkja læri að starfa saman,“ segir Bakke-Jensen. „Þetta er ástæðan fyrir því að við viljum lengja og auka núverandi samvinnu við yfirstjórn bandarísku landgönguliðanna.“

Um 330 landgönguliðar eru nú í Værnes. Ríkisstjórnin segir að stefnt sé að alls 700 liðsmönnum og verði þeim skipt milli Værnes í Þrændalögum og Setermoen í Innri-Troms.

Kortið er tekið af vefsíðunni Barents Observer og sýnir tvær stöðvar bandarísku landgönguliðanna í Noregi.
Kortið er tekið af vefsíðunni Barents Observer og sýnir tvær stöðvar bandarísku landgönguliðanna í Noregi.

„Að við þjálfum fólk til að verja Noreg ætti ekki að skapa neinum áhyggjur, á sama hátt og við sættum okkur við að aðrar þjóðir æfi í þágu eigin varna,“ segir Bakke-Jensen. Hann fullyrðir að lenging á dvalartíma bandarísku landgönguliðanna í Noregi samrýmist stefnunni um að ekki séu varanlegar erlendar herstöðvar í landinu.

„Með þessu er ekki verið að koma á fót bandarískri herstöð í Noregi,“ segir varnarmálaráðuneytið í skýringartexta.

Setermoen-herstöðin í Troms er í um 400 km frá rússnesku landamærunum á Kóla-skaga, sé farin bein leið um Svíþjóð og Finnland. Sé farið um Finnland er leiðin um 800 km.

Í blaðinu Nordlys í Tromsø sagði 12. júní að þetta væru ekki einu aðgerðir norsku ríkisstjórnar til að efla hernaðarsamstarf við Bandaríkjamenn á norðurslóðum. Blaðið segir að á Moss flugvelli við Rygge um 60 km fyrir sunnan Osló ætli Bandaríkjamenn að fjármagna gerð mannvirkja fyrir allt að fjórar bandarískar orrustuþotur, hugsanlega af gerðinni F-22 Raptor. Sumir telji þetta fullkomnustu orrustuþotur í heimi. Þá vilji Bandaríkjaher einnig nýta aðstöðuna á Andøya í norðri. Norskar kafabátaleitarvélar hafa nýtt völlinn þar en áform eru um að flytja þær til Evenes-flugvallar. Bandaríkamenn hafa áform um að fimm P-8 Poseidon kafbátaleitarvélar verði einu sinni í allt að tvær vikur á vellinum.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …