Home / Fréttir / Finnar vinna að gerð samnings um varnarsamstarf við Bandaríkjamenn

Finnar vinna að gerð samnings um varnarsamstarf við Bandaríkjamenn

 

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna.
Timo Soini, utanríkisráðherra Finna.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finna, styður að Finnar geri samning um varnarsamstarf við Bandaríkjamenn. Unnið er að gerð samningsins af finnska varnarmálaráðuneytinu.

Frá þessu var skýrt í finnska ríkisútvarpinu YLE laugardaginn 20. ágúst. Utanríkisráðherrann hefði sagt á blaðamannafundi að nánara og dýpra samstarf við Bandaríkjamenn mundi gagnast Finnum bæði í utanríkis- og öryggismálum.

„Vonandi tekst okkur að gera góðan samning við Bandaríkjamenn,“ sagði ráðherrann. „Bandaríkin eru eina risaveldi heims og það er hagur Finna að rækta samskipti við þau.“

Soini telur að samningur af þessu tagi sé eðlilegt framhald af varnarsamstarfi ríkjanna sem verður sífellt víðtækara. Utanríkisráðherrann sagði að einnig væri unnið að „góðri skipan á samstarfinu við Svía“.

Timo Soini er leiðtogi Finnaflokksins, flokksbróðir hans Jussi Niinistö er varnarmálaráðherra. Hann skrifaði nýlega undir tvíhliða samstarfsamning um varnarmál við Breta.

Heimild: YLE

Skoða einnig

Polar Star einn fjögurra gamalla ísbrjóta Bandaríkjanna,

Donald Trump gefur fyrirheit um nýjan ísbrjót

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað að láta smíða „fyrsta þunga ísbrjót Bandaríkjanna í rúm 40 …