fbpx
Home / Fréttir / Finnar efla varnir við landamæri Rússlands

Finnar efla varnir við landamæri Rússlands

Jussi Niniistö, varnarmálaráðherra Finna.
Jussi Niniistö, varnarmálaráðherra Finna.

Finnska varnarmálaráðuneytið býr sig undir að senda nýjar hersveitir að landamærum Rússlands og óskar eftir hærri fjárveitingum segir á fréttavefsíðunni Defense News laugardaginn 18. júlí. Jussi Niinistö varnarmálaráðherra segir þetta óhjákvæmilegt vegna vaxandi spennu eftir hernaðarlega íhlutun Rússa í Úkraínu.

Um er að ræða hraðliðssveitir en þeim hefur ekki áður verið haldið úti innan finnska landhersins. Til þessa hefur varnarstefna Finna verið reist á hreyfanlegum landherssveitum og að baki þeim varaliði heimamanna. Búist hefur verið til varnar í því skyni að tefja hugsanlegt innrásarlið og valda því sem mestu tjóni þegar það sækti inn í skóga og strjálbýl vatnahéruð Finnlands.

Hraðliði hersins er ætlað að auka viðbrögð við landamærin til sóknar og varnar. Jussi Niinistö sagði flugherinn og flotann ráða yfir hraðliði og nú yrði það einnig hluti landhersins.

Breyta þarf lögum til að hrinda breytingunni á landhernum í framkvæmd. Nýjar heimildir eru nauðsynlegar til að geta skráð varalið á gagnsæjan og skjótan hátt en það verður hluti hinna nýju hraðlissveita auk sérsveitarmanna og almennra hermanna.

Í fastaher Finnlands eru 12.000 manns. Með herkvaðningu og varaliði má fjölga í honum í 230.000 manns á fjórum vikum. Um 21.600 nýliðar sinna herskyldu og hljóta þjálfun á árinu 2015.

Allir finnsku stjórnmálaflokkarnir hafa orðið sammála um nauðsyn þess að auka fjárveitingar til varnarmála á árunum 2016 til 2020. Almenningur stendur einnig að baki stefnu sem miðar að auknum varnar- og fælingarmætti hersins auk nánara samstarfs við NATO.

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …