fbpx
Home / Fréttir / Evrópuríki huga að auknum flotastyrk

Evrópuríki huga að auknum flotastyrk

Þýskar freigátur af Sachsen-gerð
Þýskar freigátur af Sachsen-gerð

 

Sjóherir Evrópuríkja hafa tekið breytingum á undanförnum árum. Fjallað er um þær í grein á vefsíðunni Defense News þann 22. júní síðastliðinn. Hún hefst á tilvísun í fyrrverandi yfirmann í bandaríska flotanum. Sá sagði er hann kom fyrir þingnefnd nýlega að flotar Evrópuríkja væru veikburða sem væri áhyggjuefni fyrir Bandaríkin.

Rekja má ástæður þess að flotarnir hafa dregist saman mörg ár aftur í tímann. Hryggjarstykkið í sjóvörnum NATO hefur alla tíð verið Bandaríkjafloti en flotar hinna aðildarríkjanna höfðu þó mikilvægu hlutverki að gegna og var vel við haldið.  Þetta breyttist eftir kalda stríðið.  Ekki þótti ástæða til að fylgjast grannt með rússneska flotanum og voru flotum Evrópuríkja þess í stað falin einfaldari verkefni líkt og björgunarstörf. Einnig áttu þeir að herja á sjóræningja og hryðjuverkamenn. Áhersla var því lögð á einfaldari og færri skip.

Nýleg skýrsla sýnir að flotastyrkur Evrópuríkja á Atlantshafi hefur dregist mikið saman á síðustu áratugum.  Árið 2017 gaf bandaríska hugveitan Centre for a New Amercian Security út greinargerð um GIUK-hliðið en þá er átt við hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Þar kemur fram að aðildarríki Atlanthafsbandalagsins í Evrópu sem snúa að Atlantshafinu hafi átt 100 freigátur árið 1995. Freigátur gegna lykilhlutverki í vörnum Atlantshafs þar sem þær henta vel til kafbátaleitar. I skýrslunni segir að það sé því áhyggjuefni að árið 2017 var aðeins um 51 slíkt skip á sjó. Svipaða sögu er að segja af árásarkafbátum þjóðanna.  Árið 1995 áttu þær 145 slíka en nú eru þeir aðeins 84. Því þarf ekki að koma á óvart að samkvæmt greinargerðinni er bardagageta flotanna helmingi minni en hún var á dögum kalda stríðsins.

 

Evrópuríkjum reynist erfitt að efla flota sína

Sebastian Burns er forstjóri þýskrar stofnunar sem á ensku kallast Centre for Maritime Strategy and Security. Samkvæmt honum stuðlaði innlimum Rússa á Krímskaganum og aukin áhersla Bandaríkjaflota á Kyrrahaf að því að Evrópuríki fóru fyrir nokkrum árum að endurskoða skipulag flota sinna. Niðurstaðan var að þeir hefðu verið vanræktir of lengi og nú þyrfti að snúa þróuninni við.

Að mörgu er að hyggja varðandi þetta verkefni.  Mörg ár tekur að hanna herskip og langan tíma tekur að smíða þau.  Þetta þýðir að herskip sem tekin eru í notkun um þessar mundir kunna að henta illa fyrir verkefni líðandi stundar.  Gott dæmi um þetta eru þýskar freigátur af Baden-Württemberg gerð. Þær voru hannaðar fyrir meira en áratug. Því munu þær ekki nýtast mjög vel í erfiðum verkefnum sem þýski flotinn þarf að sinna á Atlantshafi á næstu árum.

Því þarf ekki að koma á óvart að í janúar á þessu ári tilkynntu þýsk flotayfirvöld að þau hefðu samið við hollenska skipasmíðastöð um að smíða a.m.k. fjórar nýjar freigátur. Á skrokkur þeirra m.a. að vera styrktur svo að þær geti athafnað sig í Íshafinu. Þar hefur spenna aukist á undanförnum misserum. Frakkar hafa líka ákveðið að láta smíða nýjar freigátur fyrir flota sinn. Smíði þeirra hófst árið 2019 og eiga fyrstu tvö skipin af fimm að vera komin á flot árið 2025.

Ekki þýðir að einblína á fjölda skipa eigi að styrkja flota Evrópuríkja. Einnig þarf að huga að tæknivæðingunni svo að þeir geti tekist á við hátækniandstæðinga á Atlantshafi, og annars staðar, í framtíðinni. Sem dæmi um ný hátæknivopn má nefna eldflaugar. Bretar og Frakkar þróa í sameiningu nýja flaug fyrir þyrlur sem á að geta grandað herskipum og Hollendingar stefna á að fullkomnar stýriflaugar verði komnar um borð í fjórar af freigátum þeirra árið 2024.

Á sama tíma eru Evrópuríki að endurskoða verkefni líkt og kafbátaleit og hvernig eigi að haga vörnum GIUK-hliðsins. Verkefnin tengjast því að í nýjustu varnaráætlunum ríkjanna er gert ráð fyrir að átök geti brotist út á Norður-Atlantshafi. Því þarf NATO að tryggja yfirráð sín yfir hafsvæðinu og að skipalestir komist hindrunarlaust yfir það svo hægt verði að vernda ríki Evrópu.

Aðrar breytingar kunna einnig að vera í vændum. Evrópuríki átta sig á að þau hafa verið of háð bandaríska flotanum og velta fyrir sér að reka eigin flotadeildir í framtíðinni. Það yrði ekki auðvelt fyrir þau. Vegna þess hve flotar einstakra Evrópuríkja eru veikburða þurfa mjög mörg þeirra að vinna saman ef takast eigi að mynda öfluga flotadeild. Evrópuríkin búa ekki heldur yfir stoðkerfinu sem nauðsynlegt er til að halda flotadeild á hafi úti í langan tíma.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …