fbpx
Home / Fréttir / ESB: Kýpverjar hóta neitunarvaldi gegn samkomulagi við Tyrki um stöðvun flóttamannastraums

ESB: Kýpverjar hóta neitunarvaldi gegn samkomulagi við Tyrki um stöðvun flóttamannastraums

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Nicos Anastasiades, forseti Kýpur.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Nicos Anastasiades, forseti Kýpur.

 

Kýpverjar hóta að bregða fæti fyrir samkomulag ESB við Tyrki á fundi leiðtogaráðs ESB fimmtudag (17. mars) og föstudag (18. mars) um flótta- og farandfólk. Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, tilkynnti Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, að Kýpverjar mundu beita neitunarvaldi sínu í ráðinu gegn aðildarviðræðum við Tyrki nema tyrkneska ríkisstjórnin viðurkenndi Kýpur sem sjálfstætt og fullvalda ríki.

Öll ríkin innan ESB verða samþykkja samning við Tyrki um að þeir stöðvi stjórnlausan flótta fólks frá landi sínu yfir á grísku eyjarnar í Eyjahafi.

Stjórnvöld Kýpur og Tyrklands hafa verið á öndverðum meiði í rúm 40 ár eða síðan Tyrkir réðust inn á norðurhluta Kýpur árið 1974 og lýstu níu árum síðar yfir sjálfstæði þess hluta eyjarinnar. Tyrkir eru eina þjóðin sem viðurkennir Norður-Kýpur sem sjálfstætt ríki. Vegna þessa ágreinings hefur ríkisstjórn Kýpur beitt sér gegn öllum aðildarviðræðum fulltrúa ESB við Tyrki.

„Það er ósanngjarnt, gagnslaust svo að ekki sé sagt með öllu óviðunandi að kasta ábyrgðinni vegna flóttamannavandans á mínar herðar eða á herðar lýðveldisins Kýpur,“ sagði Anastasiades forseti. Hann sagði tímasetninguna einnig sérstaklega viðkvæma vegna stöðunnar í sameiningaviðræðum milli fulltrúa norðurs og suðurs á eyjunni.

Tusk sagðist ekki hafa beitt stjórnina á Kýpur neinum þrýstingi vegna aðildarviðræðnanna. Á hinn bóginn er ljóst að ríkisstjórnum nokkurra ESB-landa, einkum Þýskalands, er kappsmál að opnaðir verði tveir kaflar í aðildarviðræðunum við Tyrki, um dómsmál og mannréttindi.

Fyrir leiðtogaráðsfundinn hafa verið kynnt drög að samkomulagi þar sem gert er ráð fyrir að flóttamenn frá Sýrlandi verði sendir til baka frá Grikklandi til Tyrklands en þess í stað lofi ESB-ríkin að taka á móti einum sýrlenskum flóttamanni beint frá Tyrklandi á móti hverjum einum sem fluttur er frá Grikklandi til Tyrklands. Hugmyndin á bakvið þetta er að draga úr áhuga flóttamanna á að borga smyglurum fyrir að koma sér ólöglega til Evrópu og hvetja þá þess í stað til að sækja um hæli í Tyrklandi.

Þessi aðferð, að stofna til flóttamanna-skipta, hefur hins vegar sætt gagnrýni meðal stjórnvalda í ýmsum ESB-ríkjum og af hálfu mannréttindasamtaka. Þá er nauðsynlegt að kanna til hlítar hvort það standist lög að senda þá sem koma ólöglega til Grikklands aftur til Tyrklands. Ekki bætir úr skák að tyrknesk stjórnvöld hafa þrengt markvisst að frelsi fjölmiðla og friðhelgi einkalífs udanfarið.

José Manuel García-Margallo, utanríkisráðherra Spánar, sagði mánudaginn 14. mars að drögin að samkomulagi við Tyrki væru „algjörlega óviðunandi“ og brytu gegn ESB-lögum og alþjóðalögum. Bent er á að flóttamálastjóri Sameinuðu þjóðanna segi það lögbrot að flytja flóttamenn hópum saman til baka úr einu landi í annað.

Skoðun flóttamannastjórans er að skoða beri hælisumsókn hvers einstaks flóttamanns í Grikklandi og ekki skuli flytja neinn aftur til Tyrklands „nema þar sé gætt fyllstu lagaskilyrða“. Tyrkir hafa til þessa aðeins fullnægt þessum skilyrðum að hluta þar sem þeir gera greinarmun á fólki sem leitar hælis frá Sýrlandi og annarra þjóða fólki.

Tyrkneska stjórnin vill einnig að tyrkneskir ríkisborgarar þurfi ekki vegabréfsáritun til að ferðast til Evrópu. Í fyrri viku náðu leiðtogar ESB og Tyrklands bráðabirgðasamkomulagi um að krafan um áritun félli niður í lok júní 2016 svo framarlega sem Tyrkir féllust á 72 skilyrði af hálfu ESB, þar á meðal fulla viðurkenningu á Kýpur.

Til þessa hafa Tyrkir aðeins fullnægt 19 skilyrðanna en ESB-mála ráðherra Tyrklands segir að 1. maí 2016 verði þau öll komin í höfn. Innan ESB er bent á að þetta sé frekar ólíklegt auk þess sem tyrkneska þingið fjalli nú um lagabreytingar sem vega enn frekar að mannréttindum í Tyrklandi, það auðveldi ekki tilhliðranir í þeirra þágu í leiðtogaráði ESB. Ekki sé unnt að opna Tyrkjum greiðfærari leið inn í ESB nema samvinna við lögreglu þar sé aukin til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi eins og mansali – lokun réttarkerfisins í Tyrklandi með aðför að mannréttindum spilli fyrir öllum áformum um lögreglusamvinnu.

Tyrkir vilja einnig að fjárhagsaðstoð ESB við sig nemi 6 milljörðum evra í stað 3 milljarða sem ESB hafði samþykkt. Milos Zeman, forseti Tékklands, gagnrýndi þessa kröfu Tyrkja á blaðamannafundi í Prag þriðjudaginn 15. mars og sagði „ókurteist fólk eins og ég kallar þetta fjárkúgun“.

Forsætisráðherra Tyrklands hafnar öllum ásökunum um að stjórn sín geri ósanngjarnar fjárkröfur. Tyrkir sýni flóttafólki umhyggju og mannúð og vilji að Evrópuþjóðir deili með sér kostnaði vegna þess. Forsætisráðherrann sagði einnig eftir fund með Donald Tusk þriðjudaginn 15. mars að vissulega bæri fyrst og síðast að stöðva ólöglega fólksflutninga en Tyrkjum væri hins vegar einnig mikið í mun að rækta nánari tengsl við ESB með afnámi vegabréfsáritana gagnvart Evrópu og auknum gangi í ESB-aðildarviðræðum sínum.

Heimild: The Wall Street Journal

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …