fbpx
Home / Fréttir / Enn tapar Merkel fylgi – leitar ESB-lausna á flóttamannavandanum

Enn tapar Merkel fylgi – leitar ESB-lausna á flóttamannavandanum

 

Drengur á flótta veifar þýskum fána við hlið landamæravarða.
Drengur á flótta veifar þýskum fána við hlið landamæravarða.

Þýska sjónvarpsstöðin ARD birti föstudaginn 5. febrúar niðurstöður skoðanakönnunar sem sýna að 80% Þjóðverja telja ríkisstjórnina ekki hafa tök á vandanum sem skapast hefur vegna hins gífurlega fjölda farand- og flóttafólks í landinu. Ábyrgðinni á því er varpað á herðar Angelu Merkel. Vinsældir kanslarans hafa fallið um 12 stig á einum mánuði. Aðeins 46% lýsa ánægju með störf hennar, flokksbróðir hennar, Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra, stendur mun betur í huga almennings með 64%, hann hefur þó lækkað um 8 stig vegna óánægjunnar með Merkel, mest er ánægjan með Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra úr Jafnaðarmannaflokknum með 70%.

Samhliða þessu dregur það ekki úr áhyggjum Merkel að flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) sem skipar sér mest gegn stefnu kanslarans nýtur stuðnings 12% (+3 stig á einum mánuði). Yrði kosið núna mundi CDU, flokkur kanslarans, fá 35% (-4 stig). Augljóst er að AfD tapar ekki fylgi þótt Frauke Petry, formaður hans, hafi í lok janúar sagt að lögreglan ætti að „beita skotvopnum“ væri það „nauðsynlegt“ gegn flóttafólki á leið yfir landamærin. Innan raða flokks Petry urðu þó margir til að hneykslast á orðum hennar.

Til marks um aukna spennu innan Þýskalands má nefna að árásir á dvalarstaði hælisleitenda verða sífellt tíðari. Thomas de Maizière innanríkisráðherra lýsir í Der Spiegel laugardaginn 6. febrúar áhyggjum yfir að „ofbeldið festi að hluta rótum í miðju samfélagsins“. Ekki er lengur aðeins um að ræða andstöðuhópa á jaðrinum heldur hafa „borgarasveitir“ verið stofnaðar í mörgum þýskum bæjum til varnar gegn útlendingum.

Þegar leitað var álits Merkel á niðurstöðum könnunar ARD svaraði hún með því að benda á að 94% Þjóðverja vildu að tekið væri á móti flóttafólki frá styrjaldarsvæðum eða þeim sem leggja á flótta vegna ofsókna af stjórnmálalegum eða trúarlegum ástæðum (73%). Hún hvikar ekki frá stefnu sinni og leitar lausna á vandanum innan ramma ESB-samstarfsins. „Við viljum takast á við ástæðuna fyrir fjöldaflótta fólks,“ sagði hún. „Hún veit hins vegar að tíminn vinnur gegn henni,“ segir Frédéric Lemaître, fréttaritari Le Monde í Þýskalandi en hér er stuðst við frásögn hans í blaðinu laugardaginn 6. febrúar.

Mánudaginn 8. febrúar verður Angela Merkel í Ankara. Hittir hún þá forystumenn Tyrklands í fjórða sinn frá því um miðjan október 2015. Fimmti fundurinn hefur þegar verður ákveðinn því að Tyrkjum hefur verið boðið á fund leiðtogaráðs ESB í Brussel 18. febrúar. Þar verður farið yfir stöðu samkomulagsins sem ESB og Tyrkir kynntu í nóvember 2015 um að Tyrkir héldu flóttamönnum frá Sýrlandi hjá sér og fengju í staðinn 3 milljarða evra frá ESB auk þess sem Tyrkir þyrftu ekki áritun í vegabréf sín til að ferðast inn á Schengen-svæðið.

Um helgina ætlar Merkel að hitta Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, til að sannfæra hann um nauðsyn þess að láta 3 milljarði evra renna til Tyrkja. Að kvöldi sunnudags 7. febrúar hittir hún François Hollande Frakklandsforseta, sem hefur efasemdir um að afnema vegabréfsáritanir fyrir Tyrki, og Martin Schulz, forseta ESB-þingsins.

Til að halda aftur af straumi fólks til Þýskalands hika yfirvöld þar ekki við að lengja listann yfir „örugg lönd“, það er fjölga þeim sem ekki eiga rétt á hælisvist í Þýskalandi vegna þess að þeim sé engin hætta búin í heimalandi þeirra. Nú eru Afganir meira að segja komnir í þennan hóp og er lagt hart að þeim að leita ekki fyrir sér um hæli.

Þýska stjórnkerfið er að sligast undan fjölda hælisumsókna. Frank-Jürgen Weise, yfirmaður stofnunarinnar sem fjallar um málefni farand- og flóttafólks, sagði föstudaginn 5. febrúar að stofnunin hefði afgreitt 280.000 hælisumsóknir á árinu 2015 en um 700.000 væru enn óafgreiddar. Af þeim hafa 370.000 þegar verið afhentar yfirvöldum en heildatalan tekur mið af spám um „áætlaðan fjölda“ í Þýskalandi. Segir í Le Monde að yfirlýsingar um óljósan fjölda aðkomufólks í landinu magni aðeins ótta meðal þýsks almennings.

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …