fbpx
Home / Fréttir / COVID-19 veldur útgerðum skemmtiferðaskipa gífurlegum vanda

COVID-19 veldur útgerðum skemmtiferðaskipa gífurlegum vanda

2020-03-18t193633z_1802233960_rc2jmf9my7fl_rtrmadp_3_health-coronavirus-usa

Frá því um miðjan mars hefur farþegum aðeins verið hleypt um borð í fáein af um 400 skipum í skemmtiferðaskiptaflota heims.

Í frétt á mbl.is segir mánudaginn 13. júlí:

„Fyrstu farþegaskip sumarsins komu til Reykjavíkur um helgina. Það fyrsta var franskt, Le Boreal, sem er tæplega 11 þúsund brúttótonn.

Skipið lagðist að Miðbakka á laugardagsmorgun og komu farþegarnir, sem voru um 200, með leiguflugvél frá París sem lenti á Keflavíkurflugvelli. Þeir fóru í skimun á flugvelli og voru síðan fluttir í 10-15 manna hópum um borð í skipið þegar niðurstaða skimana lá fyrir.

Skipið Le Bellot kom svo hingað í gær. Farþegar skipsins koma til Íslands í dag og skipið leggur í haf undir kvöld.

„Allir farþegar þurfa sjálfir að passa upp á fjarlægðartakmörk og hafa andlitsgrímu. Þegar neikvæð niðurstaða er komin má fólk fara um borð í skipið, þ.e. þurfa að sýna sms því til staðfestingar,“ segir í frétt á vef Faxaflóahafna.“

Fyrir utan „lokaðar“ ferðir af þessu tagi hafa nokkrir tugir skemmtiferðaskipa siglt um heimshöfin til að skila skipverjum til síns heima. Í frétt Bloomberg frá föstudeginum 10. júlí segir að flest skipin séu í einskonar hreinsunareldi og ekki verði unnt að selja ferðir í þau í fyrirsjáanlegri framtíð. Í Bandaríkjunum hafa útgerðarfélög komið sér saman um að huga ekki að siglingum fyrr en í fyrsta lagi 15. september.

Í frétt Bloombergs segir að vandi útgerðanna sé ekki síst mikill vegna þess hve skipin sjálf geti orðið illa úti við að liggja aðgerðalaus. Huga þurfi að vélum, hafa auga með fellibyljum, virða öryggisreglur og fullnægja alls kyns opinberum kröfum. Skipafélögin hafi aldrei fyrr glímt við neinn sambærilegan vanda.

Kostnaður er mikill við að reyna að halda í horfinu. Carnival Corp. sem á níu ólík vörumerki fyrir skemmtisiglingar og er stærsta útgerðarfélag heims á þessu sviði birti nýlega tölur sem sýna að það kostar félagið 250 milljón dollara á mánuði að halda utan um skipin eftir að þeim hefur öllum verið lagt. Félagið spáir engu um hvenær látið verður úr höfn að nýju en segir að á öðrum fjórðungi ársins hafi tapið numið 4,4 milljörðum dollara.

Talið er að um 16.000 flugvélum hafi verið lagt vegna COVID-19-faraldursins. Leitast hefur verið við að koma þeim fyrir á þurrum stöðum til að forðast ryð. Sömu sögu er að segja um skip, reynt er að finna staði þar sem talið er að tjón á þeim verði sem minnst.

Í höfnum er ekki nóg rými fyrir mörg risaskip samtímis, skip sem flytja allt 8.880 farþega og áhöfn. Legupláss fyrir skipin eru ekki hvar sem er og mörg þeirra eru við akkeri á hafi úti og koma öðru hverju í næstu höfn til að ná í vistir og eldsneyti.

Á vefsíðunni Cruisemapper.com má leita skipin uppi. Í fyrri viku voru 15 skip frá Carnival Cruise Line, Royal Caribbean og Celebrity Cruises við Bahama-eyjar. Symphony of the Seas, stærsta skemmtiferðaskip heims, sem tekur 6.680 farþega var undan strönd Dóminíkanska-lýðveldisins.

Skoða einnig

Julian Assange sviptur ríkisborgararétti í Ekvador

Stjórnvöld í Ekvador hafa svipt Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, ríkisborgararétti. Yfirvöldin segja marga ágalla hafa …