fbpx
Home / Fréttir / Bylting í gas-útflutningi Bandaríkjamanna

Bylting í gas-útflutningi Bandaríkjamanna

920x920
Gasflutningsskip við LNG-stöðina í Sabine Pass í Louisiana-ríki.

Gasflutningsskip (LNG-tanskip) lagðist við Sabine Pass LNG-stöðina í Louisiana í Bandaríkjunum sunnudaginn 21. febrúar. Skipið kom þangað til að ná í gas til útflutnings, fyrsta slíka farminn frá öðru ríki innan Bandaríkjanna en Alaska. Ekki eru nema 10 ár liðin frá því að talið var að Bandaríkjamenn yrðu varanlega háðir innflutningi á gasi (LNG). Sigldu LNG-skip meðal annars frá Hammerfest í Noregi fram hjá Íslandi með farma sína til austurstrandar Bandaríkjanna.

Gasvinnsla úr sandsteini hefur hins vegar gjörbreytt þróun orkumála í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn eru nú sjálfum sér nógir og hefja þess vegna útflutning á gasi. Þetta hefur stuðlað að lækkun orkuverðs, ekki aðeins vegna framboðs frá Bandaríkjunum heldur einnig vegna þess að gas sem ætlað var til sölu þangað hefur farið á aðra markaði um heim allan.

Asia Vision LNG-tankskipið sem sigldi að Sabine Pass LNG-stöðinni á sunnudaginn hafði verið í Mexíkóflóa siðan í janúar en beðið á hafi úti á meðan lokið var við endanlegan frágang á búnaði til útflutnings á gasi frá LNG-stöðinni. Chenerie Eenergy-fyrirtækið sem á stöðina í Sabine Pass segist vænta þess að skipið leggi úr höfn í lok mánaðarins eða byrjun mars. Upphaflega var stöðin i Sabine Pass gerð fyrir innflutning á gasi.

Í sama mund og þessi sögulegi atburður gerist í Bandaríkjunum hafa Ástralir hafið útflutning á gasi frá dýrustu LNG-stöðinni í heimi – Gorgon-stöðinni sem kostaði 54 milljarða dollara. Fyrirtækin Chevron, Shell og Exxon eru meðal þeirra sem hafa fest allt að 180 milljörðum dollara í sjö LNG-útflutningsstöðvum í Ástralíu. Útflutningur Ástrala á gasi hefur aukist stig af stigi frá því í fyrra og nær hámarki árið 2017. Þá verða Ástralir mestu gasútflytjendur veraldar, fara fram úr Qatar.

Unnið er að fjórum stórframkvæmdum í Bandaríkjunum til að breyta LNG-stöðvum í útflutningsstöðvar: Cove Point í Maryland (2017), Cameron i Louisiana og Freeport í Texas (2018) og Corpus Christi í Texas (2019).

Bandaríkjamenn hafa flutt LNG til Japans frá Alaska síðan 1969. Þess er vænst að árið 2017 verði Bandaríkjamenn nettó-útflytjendur á gasi, til þessa hafa þeir verið nettó-innflytjendur, einkum frá Kanada. Auk útflutings með skipum er bandarískt gas unnið úr sandsteini flutt með leiðslum til Mexíkó. Bandaríkjamenn voru síðast nettó-útflytjendur á gasi árið 1957.

Heimild: Reuters.

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …