fbpx
Home / Fréttir / Breskir herforingjar líkja herstyrk Breta við það sem var á fjórða áratugnum

Breskir herforingjar líkja herstyrk Breta við það sem var á fjórða áratugnum

 

Hér tölvumynd af nýju flugmóðurskipi Breta sem kemur til sögunnar 2020 - þangað til eiga þeir ekkert slíkt skip.
Hér tölvumynd af nýju flugmóðurskipi Breta sem kemur til sögunnar 2020 – þangað til eiga þeir ekkert slíkt skip.

 

„Það er óþægilega margt líkt með því sem við þjóð okkar blasir nú og gerði fyrir 90 árum. Seint á þriðja áratugnum og snemma á þeim fjórða voru Bretar að jafna sig á hryllingi fyrri heimsstyrjaldarinnar, þeir voru á barmi gjaldþrots vegna hennar og börðust við að ná sér á strik eftir kreppuna. Þótt vaxandi hætta af nasistum ógnaði evrópskum stöðugleika gilti hin alræmda „tíu ára regla“ – í henni fólst að Bretar ættu ekki í stríðsátökum næsta áratuginn. Varnir þjóðarinnar veiktust stig af stigi og þeir sem hvöttu til endurhervæðingar töluðu að mestu fyrir daufum eyrum.“

Þannig hefst grein eftir Sir Nigel Essenhigh flotaforingja, fyrrverandi yfirmann breska flotans, sem birtist í The Sunday Telegraph hinn 14. júní. Í blaðinu segir að greinin endurspegli einnig skoðanir þriggja annarra nafngreindra, fyrrverandi yfirmanna breska heraflans.

Flotaforinginn segir að eftir reynsluna af hernaði í Afganistan og Írak hafi Bretar ekki áhuga á að láta að sér kveða í Mið-Austurlöndum eða á öðrum fjarlægum slóðum þar sem barist sé án þess að friður sé í sjónmáli.

Þá horfi menn á Rússa ganga í endurnýjun lífdagana og sveifla sífellt stærra sverði og komast upp að innlima Krím og ögra Úkraínu hvað sem refsiaðgerðum líði. „Þetta er ástæðan fyrir því að dökkt ský hefur lagst yfir Eystrasaltsríkin vegna einlægs ótta meðal þjóða sem eiga hönk upp í bakið á NATO og Bretum.“

Nú eins og fyrir 90 árum treysti Bretar á sameiginlegar varnir, nú með framlagi sínu til Sameinuðu þjóðanna og NATO. Hið sama sé upp á teningnum nú og áður að Bretar grafi jafnt og þétt undan eigin vörnum. Nú sé svo komið að margir Bandaríkjamenn hafi áhyggjur af því hvort Bretar sé hinn gamli, öflugi bandamaður og áður var. Verði gengið til frekari niðurskurðar verði vegið að fælingarmætti kjarnorkuvopna Breta, á þau sé treyst sem lokatryggingu eftir að venjulegi heraflinn fæli ekki hugsanlegan óvin frá árás.

Sir Nigel Essenhigh harmar að í nýlegri ræðu sem drottning flutti til að kynna stefnu nýrrar ríkisstjórnar Davids Camerons hafi ekki verið boðaðar neinar sérgreindar aðgerðir til að styrkja breska heraflann heldur farið almennum orðum um endurskoðun varnarstefnunnar. Þar hafi til dæmis ekki verið gefið fyrirheit um að útgjöld til varnarmála yrðu 2% af vergri landsframleiðslu eins og forsætisráðherrann segðist þó sjálfur vilja. „Þar var að minnsta kosti ekkert sem benti til þess að útgjöld til varnarmála yrðu aukin í samræmi við það sem réttlæta má með aukinni ógn svo framarlega sem við viljum ekki lenda í því sama og á fjórða áratugnum að grípa of seint til gagnaðgerða.“

Í greininni færir Sir Nigel Essenhigh rök fyrir nauðsyn aukinna hernaðarútgjalda og segir í lok greinar sinnar:

„Við hvetjum þess vegna ríkisstjórnina til að viðurkenna þessa háskalegu stöðu mála og skorum á hana að tryggja að endurskoðun varnar- og öryggismálastefnunnar breytist ekki í enn eina leit að sparnaðarleiðum. Þar verður vilji til stefnumótunar að ráða en ekki til ákvörðunar um útgjöld. Stefnan verður að taka mið af því að hættan sem steðjar að langtíma öryggi okkar vex vegna markvissra, ógnandi hernaðarákvarðana. Fjárlagatillögurnar sem þarna fæðast verða að gera okkur kleift að endurreisa herafla okkar á viðunandi hátt og jafnframt skapa fordæmi fyrir bandamenn okkar sem hafa einnig lokað augunum fyrir afleiðingum þess að herstyrkurinn minnkar. Mestu skiptir að þær sýni hugsanlegum óvinum að Bretar eru eins og áður þjóð sem ekki er unnt að neyða til undirgefni vegna hernaðarlegs vanmáttar þegar ekki verður í framtíðinni unnt að leysa mál með samningum frekar en á fjórða áratugnum.“

 

 

 

Skoða einnig

Færeyingar velja Ericsson en hafna Huawei við 5G-væðingu

Færeyska símafélagið, Føroya Tele, ætlar að 5G-væðast með farkerfi frá sænska fyrirtækinu Ericsson en ekki …